„Ferðalagið gekk vel,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handknattleik, sem er komið til Málaga á Spáni þar sem liðið mætir Málaga Costa del Sol í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarsins á morgun.
„Við ferðuðumst strax um nóttina, beint eftir Fram-leikinn í rauninni, og flugum til London. Við millilentum þar í 3-4 tíma og flugum svo yfir til Málaga. Það gekk vel og við vorum komin inn á hótel í gærkvöldi.
Það voru allar nokkuð ferskar, pínu lúnar eftir ferðalagið, en svo vorum við með vídeófund í morgun og erum núna í rútu á leiðinni á æfingu í keppnishöllinni. Þær eru allar nokkuð ferskar,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is.
Hvernig leik býstu við á móti þessu sterka liði?
„Þetta er feykilega öflugt lið sem er búið að vinna þessa keppni einu sinni og hafnaði í öðru sæti einu sinni núna á síðustu þremur árum, unnu þetta 2021 og voru í öðru sæti 2022. Þær eru feykilega öflugar og eru í efsta sæti spænsku deildarinnar.
Þær eru með tvo mjög öfluga portúgalska landsliðsmenn, bæði leikstjórnanda og vinstri skyttu og mjög sterka brasilíska skyttu hægra megin. Þær eru með spænskan línumann sem er í spænska landsliðinu þannig að við búumst bara við hörkuleik.
Þær eru mjög líkamlega sterkar og spila mjög sterka 6-0 vörn. Við þurfum að vera í góðu standi á öllum vígstöðvum, hvort sem það er varnarlega og eins með okkar sóknarleik, að fara vel með boltann og koma okkur vel til baka. Þær keyra mikið tempó og sérstaklega á heimavelli,“ sagði hann.
Ágúst sagði að lokum stöðuna á leikmannahópnum vera góða.
„Elísa Elíasdóttir er ekki með okkur í ferðinni af því að hún er í lokaprófi í háskólanum. Sigríður Hauksdóttir er heldur ekki. Hún komst ekki, átti ekki heimangengt. Svo er Lilja Ágústsdóttir meidd. Annars eru allar hér og tilbúnar í slaginn.“