Haukar sigruðu Galychanka Lviv frá Úkraínu, 26:24, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik á Ásvöllum í dag.
Haukar byrjuðu leikinn vel og voru 2:0 yfir eftir fimm mínútur en Galychanka-konur jöfnuðu metin og staðan var 5:5 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður. Galychanka var skrefi á undan en Haukar enduðu fyrri hálfleik vel og voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 12:9, eftir sterkan varnarleik og Galychanka skoruðu ekki mark síðustu sex mínútur fyrri hálfleiks.
Seinni hálfleikur var kaflaskiptur en Galychanka byrjaði betur og jafnaði metin í 13:13 þegar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleik. Þá hrukku Haukar í gang og komust fjórum mörkum yfir, 18:14, en skoruðu svo ekki í átta mínútur og Galychanka jöfnuðu metin.
Leikurinn var spennandi undir lokin og staðan var 22:22 þegar fimm mínútur voru eftir en Haukar voru sterkari undir lokin og eru tveimur mörkum yfir í einvíginu, 26:24.
Liðin mætast aftur á Ásvöllum á morgun klukkan 17 og þá kemur í ljós hvort þeirra kemst í átta liða úrslit keppninnar.