„Við vissum ekki mikið en vörnin var fín í dag og sóknin ágæt svo þetta var heilt yfir fínt,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir leikmaður Hauka um 26:24-sigur liðsins gegn Galychanka Lviv frá Úkraínu í 16-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik á Ásvöllum í dag.
„Við náðum alveg að skoða þær en það var aðallega örvhenta skyttan sem kom okkur á óvart.
Við mættum vinstri skyttunni þeirra vel og vorum mjög þéttar. Það er eitthvað sem við þurfum að skoða í undirtölunni en annars vorum við þéttar og fundum fyrir hvor annarri,“ sagði Elín Klara í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
Liðin mætast strax aftur á morgun á Ásvöllum.
„Þetta er kúnst en við nærum okkur vel, skoðum þetta aðeins, tökum góðan fund og mætum svo dýrvitlausar í leikinn á morgun.“
Haukar slógu Eupen frá Belgíu auðveldlega út í fyrstu umferð keppninnar og sigruðu síðan Dalmatinka frá Króatíu tvisvar í hörkuleikjum á útivelli.
„Þetta er ótrúlega skemmtilegt verkefni og mikill heiður. Þetta er geggjað fyrir okkur allar, við erum bæði með eldri og reynda leikmenn og unga og efnilega sem ég myndi segja að væri góð blanda. Þetta er bara geggjuð reynsla fyrir okkur og ótrúlega skemmtilegt.“