„Það er bara hálfleikur“

Alexandra Líf Arnarsdóttir sækir að marki Galychanka í dag.
Alexandra Líf Arnarsdóttir sækir að marki Galychanka í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Díana Guðjónsdóttir þjálfari Hauka var sátt með 26:24-sigur liðsins gegn Galychanka Lviv frá Úkraínu í 16-liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik á Ásvöllum í dag.

„Varnarlega vorum við mjög sterkar í þessum leik. Það komu eitt og eitt mark þar sem við hefðum þurft að vera aðeins þéttari en drulluflottur leikur. Þetta er erfitt verkefni en það er bara hálfleikur og nóg eftir,“ sagði Díana í viðtali við mbl.is eftir leikinn.

„Þær voru að hitta á ákveðnum tímapunktum mjög vel í markið og við vorum ekki að stíga út þegar þær voru í þessum klippingum, en það er bara áfram gakk og það verður brjáluð stemning á morgun.“

Liðin mætast aftur á morgun og sigurvegari einvígisins fer í átta liða úrslit.

„Við erum með ungt lið þó að þær séu reynslumiklar þær sem eru 20 ára í liðinu en þetta er öðruvísi. Maður finnur alveg smá stress og við þurfum að ná því niður fyrir morgundaginn. Vera rétt stefndar og vel gíraðar.“

Haukar gera engar breytingar á hópnum fyrir morgundaginn þegar liðin mætast aftur á Ásvöllum.

Rut Jónsdóttir var markahæsti leikmaður liðsins í dag og fiskaði fjögur víti. Leikmenn Galychanka fóru harkalega í hana og hún virtist finna til en Díana hefur engar áhyggjur af henni. 

„Já já, þetta verður í lagi, hún vælir annað kvöld.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert