Persónulega lífið í molum vegna drykkju og fíkniefnaneyslu

„Ég var að skilja við konuna mína á þessum tíma og var í allskonar rugli,“ sagði handknattleiksmaðurinn fyrrverandi Sigfús Sigurðsson í Dagmálum.

Sigfús, sem er 49 ára gamall, er af mörgum talinn einn besti línumaður sem Ísland hefur átt en hann vann til silfurverðlauna með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.

Spilamennskan hrundi

Sigfús gekk til liðs við Selfoss árið 1997 og lék með liðinu í eitt tímabil eftir að hafa leikið með uppeldisfélagi sínu Val allan ferilinn.

„Mér fannst það sniðug hugmynd að fara austur á Selfoss og ætla að standa á eigin fótum,“ sagði Sigfús.

„Handboltalega séð gekk þetta ágætlega en persónulega lífið var í molum. Ég drakk mikið og var í fíkniefnaneyslu. Svo hrundi spilamennskan eftir áramót og ég flutti í bæinn. Ég keyrði á milli á æfingar og í leiki, á einhverjum Subaru, í allskonar veðri. Við enduðum út af í eitt skiptið og allskonar vesen.

Þetta hefði átt að vekja mig til umhugsunar en gerði það ekki. Þegar ég horfi til baka þá sé ég ekki eftir neinu því þetta gerði mig að þeim leikmanni sem ég varð svo seinna meir,“ sagði Sigfús meðal annars.

Viðtalið við Sigfús í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Sigfús Sigurðsson.
Sigfús Sigurðsson. mbl.is/Kristófer
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert