Valur vann yfirburðasigur á Gróttu þegar efsta og neðsta lið úrvalsdeildar kvenna í handknattleik mættust á Hlíðarenda í kvöld en lokatölur urðu 40:21.
Valur er þá með 24 stig eftir þrettán leiki, sex stigum meira en Fram og Haukar sem eiga leik til góða. Grótta er áfram á botninum með 4 stig, tveimur stigum á eftir ÍBV.
Valskonur gerðu út um leikinn strax í fyrri hálfleik en staðan að honum loknum var 23:9. Mest munaði nítján mörkum á liðunum í síðari hálfleiknum, 34:15, og sami munur var síðan í leikslok.
Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 12 mörk fyrir Val, Ásthildur Jóna Þórhallsdóttir 5 og Elín Rósa Magnúsdóttir 5 og þá varði Hafdís Renötudóttir 17 skot en hún var með 55 prósent markvörslu.
Ída Margrét Stefánsdóttir skoraði 5 mörk fyrir Gróttu og Katrín Anna Ásmundsdóttir 4.