Haukar unnu nauman sigur á ÍR, 26:25, þegar liðin mættust í úrvalsdeild kvenna í handknattleik í Skógarseli í Mjóddinni í kvöld.
Rut Jónsdóttir tryggði Haukum sigurinn með marki 25 sekúndum fyrir leikslok en ÍR náði ekki að nýta síðustu sókn leiksins.
ÍR-liðið var þá búið að vinna upp fjögurra marka forskot Hauka á lokakaflanum en staðan var 25:21, Haukum í hag, þegar rúmar sjö mínútur voru eftir en ÍR náði að jafna metin.
ÍR hafði hins vegar verið yfir lengi vel, 15:11 í hálfleik. Þegar staðan var 20:17 fyrir ÍR tóku Haukar völdin og skoruðu átta mörk gegn einu í þessum sveiflukennda leik.
Sylvía Sigríður Jónsdóttir átti stórleik með ÍR og skoraði 12 mörk og Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði fjögur.
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Hauka og Rut Jónsdóttir sex.
Haukar eru þá komnir með 20 stig í öðru sæti, fjórum stigum á eftir Val en tveimur á undan Fram sem á leik til góða. ÍR er áfram með 7 stig í sjötta sæti deildarinnar.