Stórleikur Andra gegn einu toppliðanna

Andri Már Rúnarsson átti afar góðan leik í dag.
Andri Már Rúnarsson átti afar góðan leik í dag. Ljósmynd/Jozo Cabraja

Andri Már Rúnarsson átti stórleik með Leipzig í dag þegar liðið sótti heim Hannover-Burgdorf í þýsku 1. deildinni í handknattleik.

Hannover-Burgdorf, með Heiðmar Felixson sem aðstoðarþjálfara, er eitt þeirra liða sem berjast um þýska meistaratitilinn í vetur en Leipzig, undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar, föður Andra, er í baráttu í neðri hluta deildarinnar.

Samt varð um gríðarlega spennandi viðureign að ræða og Hannover-Burgdorf knúði fram afar nauman sigur í lokin, 24:23.

Andri var í lykilhlutverki hjá Leipzig og skoraði átta mörk, öll á fyrstu 50 mínútum leiksins, og átti auk þess tvær stoðsendingar.

Leipzig er áfram í 12.  sæti deildarinnar með 14 stig. Hannover-Burgdorf náði  Kiel að stigum í öðru til þriðja sætinu með 28 stig en Melsungen er á toppi deildarinnar með 32 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert