Fram vann sterkan sigur á Stjörnunni, 30:28, í 15. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik í Úlfarsárdal í kvöld.
Fram heldur kyrru fyrir í þriðja sæti þar sem liðið er með 22 stig. Stjarnan er í fimmta sæti með tíu stig.
Fram var sterkari aðilinn til að byrja með og var með fjögurra marka forystu, 11:7, þegar fyrri hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður.
Stjarnan tók þá einstaklega vel við sér, sneri taflinu við og komst í 13:15. Gestirnir úr Garðabænum voru einu marki yfir, 15:16, í hálfleik.
Í síðari hálfleik var allt annað að sjá til Fram sem tók leikinn einfaldlega yfir og var komið átta mörkum yfir, 26:18, þegar hálfleikurinn var tæplega hálfnaður.
Framarar bættu nokkrum mörkum við en hófu að gefa töluvert eftir undir lokin. Að lokum vann Fram hins vegar tveggja marka sigur.
Lena Margrét Valdimarsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Stjörnuna. Alfa Brá Hagalín var skammt undan með sex mörk.
Eva Björk Davíðsdóttir var markahæst í leiknum með átta mörk fyrir Stjörnuna. Embla Steindórsdóttir bætti við sex mörkum og fimm stoðsendingum.
Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði 13 skot í marki Stjörnunnar.