Getum ekki kastað þessu tapi á þreytu

Hart barist í leiknum í kvöld.
Hart barist í leiknum í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Við byrjum leikinn vel og komum með 5:0 kafla eftir að hafa lent 2:0 undir. Þannig að fyrsta korterið er nokkuð gott. Síðan töpum við nokkrum boltum sóknarlega þegar við ætlum að reyna að fara auðveldu leiðina og þeir keyra í bakið á okkur með einhverjum 3-4 hraðaupphlaupsmörkum og mér fannst það vera munurinn í hálfleik,“ sagði Ásbjörn Friðriksson fyrirliði FH í handknattleik spurður að því hvað hafi orðið liði hans að falli í sjö marka tapi gegn Val í kvöld.

Spurður út í seinni hálfleikinn sagði Ásbjörn þetta:

„Við erum bara ekki nægilega góðir í seinni hálfleik og þeir alltaf skrefinu á undan og 3-4 mörkum yfir sem gerði það að verkum að við náðum aldrei neinu alvöru áhlaupi á þá. Þannig fór þetta bara í dag, því miður.“

Situr bikarleikurinn gegn ÍBV í FH liðinu í ljósi þess að þið tapið þetta stórt gegn Val í kvöld?

„Það var fínn neisti í liðinu í byrjun en það getur vel verið að hann hafi setið í okkur. Það átti samt ekki að vera þannig því við vorum allir tilbúnir í þennan leik. Auðvitað eru það samt engar kjöraðstæður að spila 80 mínútna leik og vítakeppni í Vestmannaeyjum á laugardegi og svo annan leik á þriðjudegi.

Það getur bara vel verið að sitji í okkur en það er samt engin afsökun í þessu því við erum að gera mistök sem kostar enga orku að sleppa við að gera. Þannig að við getum ekki kastað þessu tapi á þreytu.“

Eftir áramót eru tvö töp og eitt jafntefli. Fram er komið upp að hlið FH á toppnum. Hefur þú áhyggjur af framhaldinu?

„Við gerum jafntefli í hörkuleik á móti Stjörnunni sem við áttum bara að vinna þar sem við vorum með tögl og hagldir á þeim leik. Síðan töpum við á móti ÍBV í algjörum 50/50 leik og eigum síðan slakan leik hér í kvöld. Þannig að ég hef svo sem engar áhyggjur.

Við höfum samt ekki náð að setja saman 60 mínútna leik með góðum sóknarleik, góðum varnarleik og markvörslu á sama tíma. Við þurfum að finna það í næstu leikjum og vinna í því. Það er alveg eðlilegt þegar þú ert að byrja eftir rúmlega mánaðar pásu. Við þurfum bara að vinna aðeins í þessu og halda áfram.“

Næsti leikur er á móti Fjölni á föstudag. Það hlýtur að vera skyldusigur fyrir FH ekki satt?

„Við ætlum okkur að vinna næsta leik, það er ljóst,“ sagði Ásbjörn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert