„Þeir voru allir mjög ólíkir,“ sagði handknattleiksmaðurinn fyrrverandi Sigfús Sigurðsson í Dagmálum.
Sigfús, sem er 49 ára gamall, er af mörgum talinn einn besti línumaður sem Ísland hefur átt en hann vann til silfurverðlauna með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.
Sigfús lék alls 162 A-landsleiki en hann spilaði undir stjórn þeirra Þorbjörns Jenssonar, Guðmundar Þórðar Guðmundssonar, Viggós Sigurðssonar og Alfreðs Gíslasonar með landsliðinu.
„Handboltalega séð var Tobbi ekkert stórkostlegur en andlega séð var hann stórkostlegur og honum tókst alltaf að laða það besta fram í mönnum,“ sagði Sigfús.
„Gummi var frekar ferkantaður, eins og Excel-skjal, og andlega- og móralskt séð var hann ekki rosalega góður þjálfari en handboltalega séð var hann frábær. Viggó fannst mér ekkert sérstakur ef ég á að vera alveg heiðarlegur.
Á EM í Noregi, árið 2008, þá áttaði ég mig almennilega á því hvernig persóna Alfreð var. Við þurftum að vinna næstsíðasta leikinn á mótinu til að komast í undankeppni Ólympíuleikana. Fimm vikum áður hafði ég farið í aðgerð á hné og það þurfti að tæma hnéð fyrir hvern einasta leik. Hann sagði við mig eftir þann leik að ég væri búinn og að ég ætti að setja heilsuna í forgrunn,“ sagði Sigfús meðal annars.
Viðtalið við Sigfús í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.