Stjarnan vann Gróttu með minnsta mun, 29:28, þegar liðin áttust við í 17. umferð úrvalsdeildar karla í handknattleik á Seltjarnarnesi í kvöld. Sigurmarkið kom níu sekúndum fyrir leikslok.
Stjarnan er í sjötta sæti með 18 stig og Grótta er í tíunda sæti með tíu stig.
Grótta var við stjórn stærstan hluta fyrri hálfleiks, komst nokkrum sinnum fjórum mörkum yfir en Stjarnan náði góðu áhlaupi undir lok hálfleiksins og sá til þess að staðan var jöfn, 14:14, að honum loknum.
Í síðari hálfleik var allt í járnum og var það svo Ísak Logi Einarsson sem skoraði sigurmark Stjörnunnar í blálokin og tryggði gestunum úr Garðabæ bæði stigin.
Jóel Bernburg var markahæstur hjá Stjörnunni með sjö mörk og Sveinn Andri Sveinsson bætti við sex mörkum.
Adam Thorstensen varði 11 skot í marki Stjörnunnar og var með 41 prósent markvörslu.
Jón Ómar Gíslason var markahæstur í leiknum með átta mörk fyrir Gróttu. Jakob Ingi Stefánsson var skammt undan með sjö mörk.
Magnús Gunnar Karlsson varði 12 skot í marki Gróttu.