„Það var ekki erfitt að leggja skóna á hilluna,“ sagði handknattleiksmaðurinn fyrrverandi Sigfús Sigurðsson í Dagmálum.
Sigfús, sem er 49 ára gamall, er af mörgum talinn einn besti línumaður sem Ísland hefur átt en hann vann til silfurverðlauna með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.
Sigfús lagði skóna á hilluna árið 2013 eftir afar farsælan feril, bæði með landsliðinu og félagsliðum sínum.
„Ég var að verða pabbi og ég ákvað það áður en hún fæðist að ég ætlaði ekki að bjóða henni upp á það að pabbi hennar yrði í burtu öll kvöld og allar helgar,“ sagði Sigfús.
„Ég var kominn með smá ógeð líka, bæði af íþróttahúsunum og handboltanum. Ég labbaði inn í klefa og mér varð óglatt. Þá var þetta komið gott,“ sagði Sigfús meðal annars.
Viðtalið við Sigfús í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.