Fram hafði betur gegn Selfossi

Þórey Rósa Stefánsdóttir sækir að marki Selfoss í dag.
Þórey Rósa Stefánsdóttir sækir að marki Selfoss í dag. mbl.is/Anton Brink

Fram sigraði Selfoss eftir spennandi lokakafla, 30:29, í úrvalsdeild kvenna í handbolta í Úlfarsárdal í dag.

Fram er í þriðja sæti með 24 stig, jafnmörg og Haukar sem eru í öðru sæti. Selfoss er í fjórða sæti með 13 stig eftir 15 umferðir.

Leikurinn var jafn fyrstu tíu mínúturnar en Fram var mun betri undir lok fyrri hálfleiks sem endaði 17:11.

Fram var með yfirhöndina í seinni hálfleik og komst átta mörkum yfir en gestirnir minnkuðu muninn og jöfnuðu í 29:29 þegar aðeins mínúta var eftir af leiknum.

Kristrún Steinþórsdóttir skoraði sigurmark Fram þegar 48 sekúndur voru eftir af leiknum og Selfoss tók leikhlé. Katla María Magnúsdóttir tók síðasta skot Selfoss í leiknum en Darija Zecevic varði frá henni.

Lena Margrét Valdimarsdóttir var markahæst fyrir Fram með átta mörk, Þórey Rósa Stefánsdóttir skoraði sex og þær Kristrún Steinþórsdóttir og Alfa Brá Hagalín skoruðu fjögur.

 Hulda Dís Þrastardóttir var markahæst fyrir Selfoss með átta mörk. Perla Ruth Albertsdóttir skoraði sjö og Harpa Valey Gylfadóttir skoraði sex.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert