Haukar höfðu betur gegn Jeruzalem Ormoz frá Slóveníu, 31:23, í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikars karla í handbolta á heimavelli sínum á Ásvöllum í kvöld. Seinni leikurinn fer fram í Slóveníu eftir viku.
Liðin skiptust á að skora á allra fyrstu mínútunum og var staðan 2:2 eftir fimm mínútna leik. Þá skoruðu Haukar tvö í röð og komust í 4:2. Heimamenn í Haukum skoruðu í kjölfarið fjögur af næstu fimm mörkum og breyttu stöðunni í 8:3.
Eftir það skiptust liðin á að skora og voru Haukar með undirtökin út hálfleikinn. Var staðan í leikhléi 17:11 og Haukar í góðum málum.
Ormoz skoraði fyrsta markið í seinni hálfleik og minnkaði hægt og rólega muninn. Var hann þrjú mörk í fyrsta skipti í seinni hálfleik í stöðunni 22:19 þegar tæpar 20 mínútur voru eftir.
Haukar svöruðu og var munurinn fimm mörk þegar tíu mínútur voru eftir, 25:20. Liðunum gekk illa að skora næstu mínútur og var staðan 26:21 þegar fimm mínútur voru eftir.
Haukamenn gerðu vel í að bæta í og sigla sannfærandi sigri í höfn með góðri frammistöðu.