„Lið með svona mikla reynslu, það er gulls ígildi,“ sagði fyrrverandi íþróttafréttamaðurinn og handboltaunnandinn Guðjón Guðmundsson í Handboltakvöldi sem er aðgengilegt áskrifendum Handboltapassans en þátturinn er í umsjón Ingvars Örns Ákasonar.
Valsmenn sitja sem stendur í fjórða sæti úrvalsdeildarinnar með 24 stig, stigi minna en topplið FH og Fram, en liðið vann stórsigur gegn ÍR í síðustu umferð í Skógarseli í Breiðholti, 48:31.
„Þeir hafa gengið í gegnum mikla erfiðleika en þeir eru vel þjálfaðir og breiddin er ótrúleg,“ sagði Guðjón.
„Ég ætla að veðja á það, að þeir tapi ekki mörgum leikjum það sem eftir lifir tímabilsins. Það er skrítið að ætla að afskrifa lið eins og bæði Val og FH, þetta eru stórhættuleg lið,“ sagði Gaupi meðal annars en umræðuna má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.