Bennet Wiegert, þjálfari þýska handboltaliðsins Magdeburg, kennir sjálfum sér um að Gísli Þorgeir Kristjánsson hafi farið meiddur af velli er liðið mætti Aalborg frá Danmörku í Meistaradeild Evrópu í gærkvöldi.
Gísli byrjaði leikinn en fór kvalinn af velli eftir örfáar mínútur. Gísli var tæpur fyrir leikinn en Wiegert ákvað að láta reyna á það hjá íslenska leikstjórnandanum.
„Hann var tæpur fyrir leikinn og æfði ekki í vikunni. Við reyndum að tjasla honum saman en hann var greinilega ekki klár. Þetta angar mig en það þarf að taka svona ákvarðanir í íþróttum stundum. Ég ber ábyrgð,“ sagði hann við Bild eftir leik.
Gísli er ekki eini Íslendingurinn í Magdeburg sem er að glíma við meiðsli. Ómar Ingi Magnússon missti af HM í byrjun árs og hefur ekkert spilað á árinu.