Frábær sjö marka sigur Valskvenna

Thea Imani Sturludóttir á skot að marki Slavia Prag í …
Thea Imani Sturludóttir á skot að marki Slavia Prag í dag. Mbl.is/Ólafur Ardal

Valur tók á móti Slavia Prag í átta liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta í dag en leikurinn var fyrri leikur þessara liða í einvíginu og var hann leikinn á Hlíðarenda. Valskonur spiluðu frábærlega í dag og lönduðu sterkum sjö marka sigri, 28:21.

Leikurinn fór vel af stað fyrir Valskonur og skoraði Thea Imani Sturludóttir fyrsta mark leiksins. Fyrsta mark Slavia Prag kom ekki fyrr en á áttundu mínútu þegar að Simona Schreibmeierová minnkaði munin í 4:1.

Næstu mínútur jafnaðist leikurinn en Valskonur voru alltaf með frumkvæðið. Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði mark úr vítakasti á 19. mínútu og kom hún Valskonum í þriggja marka forystu, 10:7.

Þegar dómarar leiksins flautuðu til hálfleiks þá leiddi Valur með fimm marka mun, 17:12.
Þær tékknesku komu sterkar út í seinni hálfleikinn og skoruðu fyrstu tvö mörk hálfleiksins og minnkuðu muninn niður í þrjú mörk, 17:14.

Þá kviknaði aftur á Valsliðinu og skoraði Þórey Anna Ásgeirsdóttir úr hægra horninu á 46. mínútu og kom Valskonum aftur í fimm marka forystu, 23:17.

Thea Imani Sturludóttir skoraði sitt fyrsta mark í seinni hálfleiknum á 56. mínútu og sá til þess að Valskonur komust í sjö marka forystu, 26:19.

Bæði lið skiptust svo á að skora undir lok leiksins og endaði leikurinn með frábærum sjö marka sigri Vals, 28:21.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst Valskvenna með 8 mörk og Thea Imani Sturludóttir fylgdi henni fast á eftir með 7 mörk. Hafdís Renötudóttir var góð í marki Vals og varði 11skot.

Seinni leikurinn fer fram á morgun, einnig á Hlíðarenda, þar sem Valskonur fara með myndarlegt sjö marka forskot í þann leik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert