Haukar gerðu sér lítið fyrir og unnu slóvenska liðið RK Jeruzalem Ormoz í Slóveníu, 31:26, og tryggðu sér þar með sæti í átta liða úrslitum Evrópubikars karla í handbolta.
Haukar fóru með átta marka forystu inn í seinni leikinn eftir að hafa unnið fyrri leikinn á Ásvöllum, 31:23. Haukar unnu því einvígið samanlagt með þrettán marka mun, 62:49.
Haukaliðið var með frumkvæðið allan leikinn í dag og leiddi liðið mest með fjórum mörkum í fyrri hálfleiknum. Slóvenarnir náðu þó að koma til baka undir lok hálfleiksins og var jafnt að honum loknum, 12:12.
Haukaliðið var mun betra í seinni hálfleiknum og var munurinn á milli liðanna níu mörk þegar hann var mestur, 29:20.
Haukar gáfu aðeins eftir undir lok leiks, enda sigurinn í höfn, og endaði leikurinn með fimm marka sigri, 31:26.
Össur Haraldsson var markahæstur Hauka í dag en hann gerði sex mörk úr átta skotum. Þá gerðu Geir Guðmundsson og Þráinn Orri Jónsson fjögur mörk hvor. Aron Rafn Eðvarðsson var góður í marki Hauka en hann varði 11 skot.