„Þeir tveir gáfust aldrei upp á mér“

„Ég fór og ræddi við Geir [Sveinsson], sem þá var þjálfari Vals, og spyr hann hvort ég megi byrja að mæta aftur á æfingar,“ sagði handknattleiksmaðurinn fyrrverandi Sigfús Sigurðsson í Dagmálum.

Sigfús, sem er 49 ára gamall, er af mörgum talinn einn besti línumaður sem Ísland hefur átt en hann vann til silfurverðlauna með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008.

Æfði eins og skepna

Sigfús fór í meðferð í ársbyrjun 1999 og hefur verið edrú síðan en hann tók sér hlé frá handbolta þegar hann kláraði meðferðina.

„Ég var í engu formi, var orðinn svínfeitur og ógeðslegur á þessum tímapunkti,“ sagði Sigfús.

„Árið 2000 þá byrja ég aftur að æfa en ekki handbolta. Ég mætti alltaf út í Þokkabót og svo eftir vinnu niður á Hlíðarenda og þetta snérist bara um það að koma mér í stand. Ég æfði eins og skepna í einhverja tvo til þrjá mánuði og í byrjun febrúar er ég mættur aftur á völlinn í geggjuðu formi.

Ég á bæði Geir og svo Jóni Halldórssyni, núverandi formanni handknattleiksdeildar Vals, allt að þakka sem ég hef afrekað í handboltanum. Þeir tveir gáfust aldrei upp á mér, jafnvel þó ég hafi lofað öllu fögru og það hefði allt klikkað,“ sagði Sigfús meðal annars.

Viðtalið við Sigfús í heild sinni má nálgast með því að smella hér eða á hlekkinn hér fyrir ofan.

Sigfús Sigurðsson.
Sigfús Sigurðsson. mbl.is/Brynjar Gauti
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert