Þórey Anna Ásgeirsdóttir átti frábæran leik fyrir Valskonur í dag í jafntefli, 22:22, gegn Slavia Prag frá Tékklandi í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik í dag.
Valskonur fara samanlagt áfram og mæta Iuventa frá Slóveníu í undanúrslitunum.
Þórey Anna skoraði 8 mörk, þar af 5 úr vítum.
„Þetta var erfiður leikur í dag. Við þurftum að breyta hugarfarinu eftir að við byrjuðum leikinn. Við vorum mjög slappar í fyrri hálfleik og ekki með hausinn rétt skrúfaðan á. En við tókum ákvörðun um það í hálfleik að við ætluðum að breyta okkar leik og gerðum það,“ sagði Þórey í samtali við mbl.is.
Ágúst tók leikhlé í lok fyrri hálfleiks þar sem hann virtist gjörsamlega vera að lesa yfir ykkur. Getur þú upplýst okkur um hvað hann sagði við ykkur, því eftir það þá bættuð þið heldur betur ykkar leik?
„Hann sagði bara að við þyrftum að núllstilla okkur og koma okkur í stand eins og hann hefur oft sagt áður. Þetta leikhlé var nú ekkert miðað við mörg önnur sem við höfum lent í hjá honum. En þetta virkaði,“ sagði Þórey hlæjandi.
Seinni hálfleikur var allt annar en sá fyrri. Hvað fór fram í hálfleik sem gerir það að verkum að þið náið þessum viðsnúningi?
„Í fyrsta lagi þá vorum við ekkert með hugann við þetta í fyrri hálfleik og við ræddum um að breyta því. Síðan ræddum við að bæta varnarleikinn. Það gekk eftir og um leið og það gerðist þá varð þetta mun þægilegri leikur fyrir okkur.“
Næsta verkefni hjá ykkur er undanúrslitaleikur á fimmtudaginn gegn Fram og síðan mögulega úrslitaleikur á laugardag ef sá leikur fer vel. Verða Valskonur komnar í nægilega gott stand á fimmtudag til að geta farið í annað svona prógramm eins og í dag?
„Já heldur betur. Þetta er skemmtilegasti tíminn. Við viljum spila þétt og það er miklu skemmtilegra að spila en að æfa. Við þurfum bara að hvíla okkur og taka einhverja fundi. Síðan mætum við Fram á fimmtudag. Það verður hörkuleikur. Við verðum bara að setja okkur í stand og gera þetta almennilega.“
Þið ætlið ykkur væntanlega alla leið í úrslitaleikinn á laugardag?
„Að sjálfsögðu er það alltaf stóra markmiðið en við hugsum bara um einn leik í einu og ná góðri frammistöðu í þeim leik,“ sagði Þórey Anna í samtali við mbl.is.