Valskonur í undanúrslit Evrópubikarsins

Hildigunnur Einarsdóttir ræðst að marki Slavia Prag.
Hildigunnur Einarsdóttir ræðst að marki Slavia Prag. mbl.is/Ólafur Árdal

Slavia Prag og Valur áttust við í seinni leik sínum í 8 liða úrslitum Evrópubikarsins í handbolta í dag og lauk leiknum með jafntefli 22:22. Fyrri leikur liðanna sem var í gær endaði með 28:21 sigri Valskvenna. Valskonur komast því áfram í undanúrslitin með samanlögðum betri úrslitum.

Valskonur byrjuðu leikinn ágætlega og komust yfir í 2:0 og svo 3:1. Slavia Prag jafnaði leikinn í 3:3 og komst síðan yfir í honum. Eftir það réði tékkneska liðið leiknum og náði 6 marka forskoti í stöðunni 12:6. Þá tók Ágúst Þór Jóhannsson leikhlé og gjörsamlega las sínum leikmönnum pistilinn fræga.

Valskonur gerðu mikið af mistökum í sóknarleik sínum sem fólust í misheppnuðum sendingum, illa gripnum boltum sem enduðu hjá mótherjanum og fleiri ódýrum mistökum sem Valskonur eru ekki þekktar fyrir.

Eitthvað virkaði ræða Ágústar því Valskonur náðu að minnka muninn niður í 4 mörk í stöðunni 12:8 en Slavia Prag jók forskotið í 5 mörk fyrir hálfleik.

Staðan í hálfleik var 14:9 fyrir Slavia Prag.

Simona Schreibmeierová skoraði 6 mörk í fyrri hálfleik og voru 4 þeirra úr vítaskotum. Michaela Malá varði 9 skot og skoraði eitt mark í marki Slavia Prag.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir og Thea Imani Sturludóttir skoruðu 3 mörk hvor fyrir Val í fyrri hálfleik og Hafdís Renötudóttir varði 10 skot í markinu.

Slavía Prag náði aftur 6 marka forskoti í byrjun seinni hálfleiks. Þá tóku Valskonur við sér og hófu hægt og rólega að saxa niður forskot tékkneska liðsins.

Þegar 18 mínútur lifðu leiks var staðan orðin 18:15 fyrir Slavía Prag, þriggja marka munur og Valskonur í sókn. Þá tók við kafli þar sem þær Hafdís Renötudóttir og Michaela Malá vörðu hvert skotið á fætur öðru. Þegar 16 mínútur voru eftir af seinni hálfleik var staðan enn þá 18:15 en þá tók þjálfari Slavia Prag leikhlé enda þurfti liðið að vinna leikinn með 7 mörkum til að knýja fram framlengingu.

Næsta mark í leiknum kom samt ekki fyrr en 16 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en það var Þórey Anna Ásgeirsdóttir sem skoraði markið og minnkaði muninn niður í tvö mörk í stöðunni 18:16 fyrir Slavia Prag og Valskonur því 5 mörkum yfir í einvíginu.

Það má segja að Valsliðið sem spilaði leikinn í gær hafi mætt aftur á þessum tímapunkti því liðið lék á alls oddi. Þórey Anna minnkaði muninn niður í eitt mark í stöðunni 19:18 áður en Slavia Prag náði að skora.

Þegar 9 mínútur voru eftir af leiknum fékk Nikola Melicharová sína þriðju brottvísun og þar með rautt spjald og var róðurinn orðinn mjög þungur fyrir tékkneska liðið.

Valskonur gengu á lagið og jöfnuðu leikinn í stöðunni 21:21. Undanúrslitin handan við hornið fyrir Valskonur enda aftur komnar 7 mörkum yfir í einvíginu.

Leikmenn Slavia Prag reyndu hvað þeir gátu til að vinna upp forskot sitt aftur en Valskonur gáfu ekkert eftir í lokin. Valskonur gátu komist yfir þegar 30 sekúndur voru eftir af leiknum en það tókst ekki og lauk leiknum með jafntefli 22:22 og fara Valskonur áfram í undanúrslit með samanlögð úrslit 50:43.

Simona Schreibmeierová skoraði 9 mörk í fyrri hálfleik og voru 5 þeirra úr vítaskotum. Michaela Malá varði 15 skot og skoraði eitt mark í marki Slavia Prag.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 8 mörk, þar af 5 úr vítaskotum, og Hafdís Renötudóttir varði 20 skot, þar af 2 vítaskot í marki Valskvenna og er klárlega besti leikmaður leiksins.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Man. City 0:2 Liverpool opna
90. mín. Leik lokið Liverpool komið með ellefu stiga forskot. Virðist fátt geta komið í veg fyrir að Liverpool verði meistari í vor.
Ísland 72:59 Tyrkland opna
99. mín. skorar

Leiklýsing

Slavia Prag 22:22 Valur opna loka
60. mín. Leik lokið Valskonur vinna einvígið og eru komnar í undanúrslit Evrópubikarsins.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert