Elliði Snær Viðarsson var markahæstur annan leikinn í röð hjá Gummersbach þegar liðið lagði Tatabanya að velli, 33:27, í Evrópudeildinni í handknattleik í kvöld.
Elliði Snær skoraði sjö mörk líkt og í stórsigri á RN Löwen í þýsku 1. deildinni um liðna helgi og var markahæstur allra í leiknum.
Gummersbach fór með sigrinum upp í annað sæti 4. riðils þar sem liðið er með sex stig líkt og Toulouse sæti neðar.
Teitur Örn Einarsson lék ekki með Gummersbach í kvöld vegna meiðsla. Guðjón Valur Sigurðsson þjálfar liðið.
Í 2. riðli fór Benfica illa að ráði sínu og tapaði fyrir Ystad, 37:33. Ystad er áfram á botninum en nú með tvö stig og Benfica er enn í þriðja sæti með fjögur stig.
Stiven Tobar Valencia skoraði tvö mörk fyrir Benfica.