Öflugur gegn þýska stórliðinu

Þorsteinn Leó Gunnarsson.
Þorsteinn Leó Gunnarsson. mbl.is/Arnþór

Þorsteinn Leó Gunnarsson var markahæstur í liði Porto þegar það tapaði fyrir þýska stórliðinu Kiel, 30:35, í 3. riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik í Porto í Portúgal í kvöld.

Þorsteinn Leó skoraði fimm mörk fyrir Porto, sem er í þriðja sæti riðilsins með aðeins tvö stig eftir fimm leiki.

Markahæstir í leiknum voru Elias Ellefsen á Skipagötu og Bence Imre með sjö mörk hvor fyrir Kiel.

Í hinum leik riðilsins skildu Melsungen og Vojvodina jöfn, 26:26. Elvar Örn Jónsson komst ekki á blað hjá Melsungen, sem er í öðru sæti riðilsins með átta stig.

Arnar Freyr Arnarsson lék ekki með Melsungen vegna meiðsla.

Akureyringurinn á toppnum

Dagur Gautason átti flottan leik fyrir Montpellier þegar liðið vann GOG 30:28 á heimavelli í 1. riðli.

Akureyringurinn skoraði þrjú mörk fyrir Montpellier, sem trónir á toppi riðilsins og er búið að tryggja sér sæti í átta liða úrslitum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert