Haukakonur eru komnar í undanúrslit bikarkeppni HSÍ eftir sigur á Gróttu á Ásvöllum í kvöld 31:21. Haukar leika því gegn Fram á laugardaginn.
Fyrirfram bjuggust kannski margir við auðveldum Haukasigri í kvöld í ljósi þess að Haukar unnu Gróttu með 19 marka mun í haust og 8 mörkum núna í janúar. Það var hinsvegar ekki uppi á teningnum í fyrri hálfleik.
Þó að Haukakonur hafi byrjað leikinn betur, skorað fyrsta markið og 4 marka forskoti í stöðunum 8:4 og 10:6 þá tókst Gróttu að minnka muninn í stöðunni 10:9 fyrir Hauka. Grótta fékk svo tækifæri til að jafna leikinn í tvígang en Sara Sif Helgadóttir varði þá mikilvæg skot fyrir Hauka.
Vörn Hauka var mjög sterk í fyrri hálfleik og voru Gróttukonur í vandræðum með að brjóta sér leiðir í gegn, sérstaklega í upphafi leiks. Haukakonur áttu að sama skapi í vandræðum í sínum sóknarleik og sást það glögglega þegar Gróttukonur spiluðu 5+1 vörn og nánast tóku Elínu Klöru úr umferð.
Haukakonur komust tveimur mörkum yfir í stöðunni 11:9 og náðu síðan að bæta við einu marki áður en hálfleiksklukkan hljómaði.
Staðan í hálfleik 12:9 fyrir Hauka.
Ída Margrét Stefánsdóttir skoraði 3 mörk, þar af eitt úr víti fyrir Gróttu í fyrri hálfleik. Anna Karolína Ingadóttir átti góðan fyrri hálfleik hjá Gróttu og varði 4 skot.
Í liði Hauka var Elín Klara Þorkelsdóttir með 6 mörk, þar af tvö úr vítum í fyrri hálfleik fyrir Hauka og Sara Sif Hlegadóttir var með 50% markvörslu í 9 vörðum skotum.
Það má segja að Haukakonur hafi gjörsamlega keyrt yfir Gróttu frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Á fyrstu 10 mínútum seinni hálfleiks skoraði Grótta 1 mark en Haukar 8 og staðan orðin 20:10 fyrir Hauka. Það má segja að með þessu áhlaupi Hauka strax í byrjun seinni hálfleiks hafi leiknum í raun verið óformlega lokið.
Gróttukonur skoruðu annað mark sitt í seinni hálfleik þegar tæplega 14 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik en þá var staðan orðin 21:11 fyrir Hauka. Haukar náðu mest 11 marka forskoti í leiknum. Það náðu Gróttukonur þó að minnka niður í 7 mörk.
Það er í raun lítið meira um leikinn að segja nema það að Gróttukonur héldu alltaf áfram og gáfust aldrei upp þrátt fyrir að munurinn væri mikill. Haukakonur voru einfaldlega nokkrum númerum of stórar í fyrir Gróttukonur í þessum undanúrslitaleik og unnu að lokum 10 marka sigur.
Ída Margrét Stefánsdóttir skoraði 8 mörk, þar af 4 úr vítum fyrir Gróttu og Karlotta Kjerúlf Óskarsdóttir skoraði 6 mörk. Anna Karolina Ingadóttir varði 8 skot, þar af 1 víti.
Hjá Haukum var Elín Klara Þorkelsdóttir með 9 mörk, þar af 2 úr vítum. Sara Sif Helgadóttir varði 13 skot og Margrét Einarsdóttir varði 2 skot, þar af 1 víti.