Díana Guðjónsdóttir þjálfari kvennaliðs Hauka var að vonum ánægð með 10 marka sigur gegn Gróttu í undanúrslitum bikarkeppni HSÍ.
Spurð út í leikinn sagði Díana þetta:
„Við byrjum leikinn ágætlega og byggjum upp fjögurra marka forskot. Síðan missum við aðeins dampinn varnarlega og þær minnka muninn niður í eitt mark. Sóknarlega hikstuðum við aðeins á sama tíma en förum með þriggja marka forskot í hálfleik.
Síðan ræddum við bara saman um að laga eitt og annað í hálfleik og það skilaði sér heldur betur inn á völlinn því Grótta skorar tvö mörk á fyrsta korterinu og það gerði útslagið myndi ég segja.“
Haukar lentu í talsverðum vandræðum gegn 5-1 vörn Gróttu í fyrri hálfleik sem útskýrir kannski afhverju munurinn fór alveg niður í eitt mark á tímabili milli liðanna. Er þetta eitthvað áhyggjuefni fyrir úrslitaleik gegn talsvert sterkari andstæðingi á laugardag?
„Nei ekki þannig. Við þurfum bara að fara aðeins inn á við og skoða okkar leik og okkur sjálfar. Ég hefði viljað sjá Söru Odden fara meira upp í loftið og skjóta á þessum tímapunkti. Við undirbúum okkur vel fyrir laugardaginn og mætum tilbúin í þann leik,“ sagði hún.
Elín Klara skorar 9 mörk og Sara Sif er með 13 varin skot og líklega bestu leikmenn Hauka í kvöld. Voru aðrir leikmenn að spila yfir getu í kvöld?
„Mér fannst allar vera að leggja sig fram í kvöld og koma með framlag sem skipti máli í öllum köflum leiksins. Þannig erum við bestar þegar allir eru að leggja eitthvað í leikinn og það er það sem við þurfum líka að gera á laugardaginn,“ sagði Díana.
Út frá sálfræðinni. Nú var Fram að vinna erfiðan sigur á sterku liði Vals fyrr í kvöld á meðan Haukar fara kannski aðeins auðveldar í gegnum undanúrslitin gegn Gróttu. Er þetta eitthvað sem kemur til með að skipta máli þegar liðin mætast á laugardaginn?
„Bara engu máli. Það er bara þannig. Þegar þú mætir í úrslitaleik í bikar á laugardag þá skiptir leikurinn sem var spilaður hér í kvöld engu máli. Þú mætir 150% klár og ég efast ekki um að mínir leikmenn fari hér skríðandi af velli því þær munu leggja allt í sölurnar til að vinna bikarinn,“ sagði Díana Guðjónsdóttir að lokum í samtali við mbl.is.