Tökum það góða út úr þessu

Júlíus Þórir Stefánsson ræðir við leikmenn sína í kvöld.
Júlíus Þórir Stefánsson ræðir við leikmenn sína í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Júlíus Þórir Stefánsson þjálfari kvennaliðs Gróttu var stoltur af sínu liði þrátt fyrir tap gegn Haukum í undanúrslitum bikarkeppni HSÍ í kvöld.

Spurður út í leikinn sagði Júlíus að hann hefði viljað enda leikinn með minni mun í ljósi þess að lítill munur var á liðunum í fyrri hálfleik.

„Ég var virkilega sáttur með fyrri hálfleikinn og við náðum að gera nokkurnveginn allt sem við töluðum um að gera nema það vantaði kannski aðeins upp á skotnýtingu.

Ég er ógeðslega stoltur af stelpunum, klúbbnum og stuðningsmönnum. Við erum bara að taka það góða út úr þessu. Það var svo sem viðbúið að Haukakonur hafi ekki verið sáttar með sína spilamennsku í fyrri hálfleik og koma mun beittari og harðari í seinni hálfleikinn og keyra yfir okkur á fyrstu 10 mínútunum.“

Ef við skoðum fyrri hálfleikinn þá virtist 5-1 vörn Gróttu vera að fara ansi illa með Hauka á köflum. Ertu sammála því?

„Já engin spurning. Ég lagði mikið upp úr því að við myndum láta finna fyrir okkur og taka vel á í vörninni. Oft á tíðum þegar maður er með ungt og efnilegt lið eins og ég er með núna þá þarf oft að losa um einhvern skrekk kannski gagnvart svona reyndari og stærri nöfnum.

Ég impraði á því að þó Haukar hafi frábærar handboltakonur innan sinna raða þá getum við alveg barist um hvern einasta bolta í vörninni því að þú þarft ekki að vera efnilegur eða góður í handbolta til að berjast,“ sagði hann.

Grótta skorar samt 21 mark í þessum leik. Það er heldur ekkert slæmt í svona leik eða hvað?

„Nei kannski ekki en þó jú. Sóknarleikurinn höktir aðeins of mikið hjá okkur á köflum og ég þarf að skoða það bara. Við lendum stundum í svona brekkum í byrjun seinni hálfleiks líkt og gerðist í kvöld. Við þurfum að skoða það,“ sagði Júlíus.

Nú tekur deildin aftur við og Grótta er á botninum en þó ekki fallið. Hvaða möguleikar eru í stöðunni þar?

„Þetta er allt í okkar höndum. Við erum komin með innbyrðisviðureign gegn ÍBV en samt 2 stigum á eftir þeim. Það er krefjandi prógram eftir en samt alveg möguleikar. Við stefnum á að komast í þetta umspilssæti og fara í umspil við liðin í 1.deild.

Ef við byggjum ofan á þessa góðu kafla sem við höfum spilað eins og í 45 mínútur gegn Fram og fyrri hálfleikinn í kvöld að þá finnst mér tilvera okkar í deildinni eiga rétt á sér,“ sagði hann.

Er þá ekki gott að búa að leikjum líkt og í kvöld og bikarkeppninni í heild sinni upp á reynslu til að spila þessa umpsilsleiki sem mögulega eru framundan hjá Gróttu?

„Klárlega. Það er engin spurning. Þó við förum í gegnum tvö neðri deildarlið til að komast hingað að þá erum við í neðsta sæti og að tapa mikið af leikjum sem er mjög erfitt andlega. Síðan mætum við liðum í næstu deild fyrir neðan og erum allt í einu stóra liðið og eigum að klára þá leiki.

Það er bara áskorun og var erfitt en við kláruðum þau verkefni vel. Það er klárlega eitthvað sem við getum byggt ofan á,“ sagði Júlíus Þórir Stefánsson að lokum í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert