„Það er allt á milljón í höfðinu á mér,“ sagði Elín Klara Þorkelsdóttir leikmaður Hauka í samtali við mbl.is eftir að hún vann sinn fyrsta titil í meistaraflokki með uppeldisfélaginu er það varð bikarmeistari með sigri á Fram, 25:20, á Ásvöllum í dag.
„Leikurinn er smá móða og þetta er æðisleg tilfinning. Við mættum ótrúlega grimmar til leik og allur fiðringurinn hvarf strax í byrjun. Það var mikill kraftur í okkur og við vorum góðar í vörninni,“ sagði hún.
Haukar voru með 3-5 marka forskot nánast allan seinni hálfleik og hleypti Framliðinu aldrei of nálægt sér.
„Við náðum að halda fjögurra marka forskoti og svo varð það mest sex mörk. Þá fann maður að þetta var að fara að gerast.
Það er ótrúlega góð liðsheild hjá okkur. Varnarleikurinn var geðveikur og ég er rosalega stolt af öllum. Þetta var kærkomið,“ sagði Elín og hljóp svo að fagna með liðsfélögunum.