Íþróttadeild Morgunblaðsins og mbl.is heldur áfram að gramsa í myndasafni Morgunblaðsins og birta á mbl.is á laugardögum.
Á meðfylgjandi mynd fagna Valsmenn sigri í bikarkeppni HSÍ árið 1988 eftir býsna öruggan sigur á Breiðabliki í úrslitaleiknum í Laugardalshöllinni 25:15.
Valsliðið var ógnarsterkt keppnistímabilið 1987-88 og varð bæði Íslands-og bikarmeistari. Liðið sigraði með sannfærandi hætti í báðum keppnum.
Júlíus Sigurjónsson myndaði úrslitaleikinn fyrir Morgunblaðið og þessi mynd hans birtist í blaðinu með umfjöllun um leikinn fimmtudaginn 14. apríl 1988. Þar sjást miklar kempur fagna sigrinum: Valdimar Grímsson, Jakob Sigurðsson, Júlíus Jónasson og Theodór Guðfinnsson. Á bak við Theodór má greina andlit Einars Þorvarðarsonar.
Einar gerði Blikum afar erfitt fyrir í úrslitaleiknum og varði 21 skot og fékk aðeins á sig 15 mörk eins og áður segir. Fyrir framan hann stóðu firnasterkir varnarmenn eins og Júlíus en einnig Geir Sveinsson auk þess sem úrslitaleikurinn var síðasti leikur Þorbjarnar Guðmundssonar sem leikið hafði með Mulningsvélinni löngu áður. Bikarúrslitaleikirnir voru síðustu leikir tímabilsins en þá hafði ekki verið tekin upp úrslitakeppni í Íslandsmótinu.
Ef til vill staldra einhverjir lesendur við að Breiðablik hafi verið í bikarúrslitaleik í handboltanum. Breiðablik var með öflugt lið undir stjórn Geirs Hallsteinssonar og hefur ekki náð slíkum hæðum síðan. Í marki Blika var Guðmundur Hrafnkelsson sem síðar átti heldur betur eftir að geta sér gott orð í íþróttinni. Þar voru einnig kunnir handboltamenn eins og Hans Guðmundsson og Jón Þórir Jónsson.
Þjálfarinn kunni Kristján Halldórsson var í liðinu og fyrir áhugasama um ættfræði þá var Aðalsteinn Jónsson í skyttustöðunni hægra megin. Synir hans Arnór Sveinn og Bjarki hafa leikið á Íslandsmótinu í knattspyrnu og Einar Bragi lék nýlega sína fyrstu landsleiki í handknattleik.
Þegar Valur og Breiðablik mættust á Hlíðarenda í deildinni þegar langt var liðið á tímabilið gerðu þau jafntefli 23:23. Logi Bergmann Eiðsson gat þess í umfjöllun sinni í Morgunblaðinu að það hafi verið fyrsti leikurinn á tímabilinu þar sem Valur fékk á sig meira en 21 mark. Segir það nokkuð um vörnina og markvörsluna.
Jakob hafði verið landsliðsmaður í mörg ár árið 1988 og Júlíus og Valdimar áttu eftir að verða fastamenn í landsliðinu nánast allan tíunda áratuginn. Þessir þrír voru allir í stórum hlutverkum þegar Ísland lék um verðlaun á Ólympíuleikunum í Barcelona árið 1992. Theodór þjálfaði kvennalandsliðið um tíma en hann hefur áður komið við sögu í Gömlu ljósmyndinni en þá í búningi Breiðabliks.
Í dag er leikið til úrslita í bikarkeppninni og fara úrslitaleikirnir fram á Ásvöllum í Hafnarfirði. Í karlaflokki mætast Stjarnan og Fram. Í kvennaflokki eigast við Fram og Haukar.