Fram er bikarmeistari karla í handbolta árið 2025 eftir sigur á Stjörnunni 31:25 í dag.
Það var allt í járnum mestallan fyrri hálfleik. Fram leiddi með einu marki en Stjörnumenn eltu og voru ýmist að jafna eða minnka muninn í eitt mark. Þannig var það allt fram á 22. mínútu leiksins þegar Fram komst tveimur mörkum yfir í stöðunni 10:8 fyrir Fram.
Í stöðunni 4:4 braut Magnús Öder Einarsson mjög illa á Sveini Andra Sveinssyni og fékk réttilega beint rautt spjald.
Þá tók Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar leikhlé, líklega til að forðast það að munurinn myndi aukast enn frekar. Það gerðist nú samt því Fram náði fjögurra marka forskoti í stöðunni 12:8 með sirkúsmarki frá Reyni Þór Stefánssyni.
Stjörnumenn gáfust þó aldrei upp og má þakka Adam Thorstensen miklu þar. Hann varði 9 skot í fyrri hálfleik og oft á tíðum mikilvæg skot. Stjörnumenn náðu að minnka muninn niður í tvö mörk fyrir hálfleik og var staðan 14:12 fyrir Fram í hálfleik.
Hans Jörgen Ólafsson og Jóel Bernburg skoruðu þrjú mörk hvor fyrir Stjörnuna í fyrri hálfleik og Adam Thorstensen varði 9 skot.
Hornamaðurinn Ívar Logi Styrmisson átti frábæran fyrri hálfleik og skoraði 5 mörk, þar af tvö úr vítum. Arnór Máni Daðason varði 7 skot, þar af eitt vítaskot.
Framarar mættu dýrvitlausir inn í seinni hálfleikinn og komust fjórum mörkum yfir í stöðunni 16:12 og virtist sem þeir ætluðu að keyra yfir Stjörnuna.
Stjörnumenn voru ekki sammála því, börðust eins og ljón og jöfnuðu leikinn í stöðunni 18:18. Adam Thorstensen varði síðan í næstu sókn Fram og fékk Stjarnan tækifæri til að komast yfir í leiknum.
Það tókst ekki og þá tóku Framarar af skarið og skoruðu þrjú mörk í röð og staðan orðin 21:18 fyrir Fram sem virtist á þessum tímapunkti vilja þetta meira.
Fram náði 4 marka forskoti með marki frá Theodóri Sigurðssyni í stöðunni 23:19 fyrir Fram . Þá tók Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar leikhlé enda bara 13 mínútur eftir. Það skilaði litlu því Fram vann boltann og komst 5 mörkum yfir í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 24:19.
Í stöðunni 25:21 fengu Fram vítakast. Ívar Logi Styrmisson skaut í andlit Sigurðar Dan Óskarssonar og fékk beint rautt spjald. Annað beina rauða spjald Fram í leiknum. Þetta notfærði Stjarnan sér og skoraði 3 mörk í röð. Staðan orðin 25:24 fyrir Fram.
Þá var komið að Fram að skora þrjú mörk í röð. Það gerðu þeir með harðfylgi og miklum klaufaskap hjá Stjörnunni sem misstu boltann klaufalega frá sér í einu markinu sem gaf Fram í raun tvö mörk á 20 sekúndum.
Í kjölfarið tók Hrannar Guðmundsson leikhlé þar sem staðan var orðin 28:24 og 4 mínútur og 27 sekúndur eftir af leiknum.
Jóel Bernburg skoraði 7 mörk fyrir Stjörnuna. Adam Thorstensen varði 14 skot og Sigurður Dan Óskarsson 4 skot, þar af 1 víti.
Ívar Logi Styrmisson skoraði 8 mörk fyrir Fram, þar af 5 úr vítum. Arnór Máni Daðason varði 8 skot, þar af eitt vítaskot og Breki Hrafn Árnason varði 3 skot.
Til hamingju með bikarmeistaratitilinn Framarar.