Sara Sif Helgadóttir var valin besti leikmaður bikarúrslita kvenna í handbolta en hún varði 15 skot er Haukar unnu Fram, 25:20, í úrslitaleik á Ásvöllum í dag. Hana dreymdi ekki endilega einstaklingsverðlaunin.
„Ég einbeiti mér aldrei að því. Ég vildi sjá liðið mitt vinna og mér er alveg sama hver er bestur. Við viljum vera allar saman í þessu, sem við vorum í dag. Þetta var ógeðslega gaman,“ sagði Sara, sem var ánægð með spilamennsku Hauka í dag.
„Við komum rosalega vel inn í leikinn og vorum rosalega grimmar strax í upphafi. Það stressar þær aðeins og þær skoruðu aðeins sex mörk í fyrri hálfleik.
Þetta var fáránlega góð vörn hjá okkur, því þær eru með gott sóknarlið. Ég er ótrúlega stolt af varnarlínunni í dag, sem gerði lífið mitt einfaldara,“ sagði hún.
Sara yfirgaf Val eftir síðustu leiktíð en þar fékk hún ekki að spila eins mikið og hún vildi eftir komu Hafdísar Renötudóttur. Hún hafði alltaf trú á að geta haldið áfram að vinna titla hjá Haukum.
„Ég hafði bullandi trú á því. Stelpurnar sem eru hérna eru ótrúlega flottar og leggja mikið á sig á hverri einustu æfingu. Rut kom svo inn í þetta og þá urðum við enn betri. Ég vildi fá að spila meira og ekki er verra að gera það í svona geggjuðu liði,“ sagði Sara.