„Góður tímapunktur fyrir hann“

Björgvin Páll Gústavsson og Snorri Steinn Guðjónsson.
Björgvin Páll Gústavsson og Snorri Steinn Guðjónsson. mbl.is/Eyþór

Landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson teflir fram mikið breyttu liði í leikjunum við Grikkland heima og úti í undankeppni EM karla í handbolta síðar í mánuðinum. Fjölmargir leikmenn eru að glíma við meiðsli og þá ætlar Snorri að gefa markverðinum unga Ísaki Steinssyni tækifærið en hann hefur leikið vel með Drammen í Noregi.

„Hann er góður og efnilegur markvörður. Hann hefur æft með okkur nokkrum sinnum og þetta er einn af þeim markvörðum sem ég held að geti orðið okkar framtíðarmarkvörður. Það tekur tíma að verða landsliðsmarkvörður. Það þarf töluverða reynslu og mér finnst þetta vera góður tímapunktur til að hefja vegferð með hann. Ég ákvað að fara þessa leið en ég er enn þá þeirrar skoðunar að Viktor og Björgvin sé okkar besta markvarðapar. Mér finnst ég þurfa að horfa lengra fram í tímann.

Ég ber ábyrgð á því að stækka hópinn, breikka úrvalið af leikmönnum og huga að því sem kemur seinna. Björgvin æfði með okkur 2007 og fór á fyrsta stórmótið árið 2008. Við sjáum hvernig það fór. Það er eflaust einhver áhætta fólgin í þessu en mér fannst þetta eitthvað sem ég varð að gera,“ sagði Snorri í samtali við Morgunblaðið.

Ísak Steinsson eftir leik með Drammen.
Ísak Steinsson eftir leik með Drammen. Ljósmynd/Drammen

Samt engin læti

Ísak kemur inn í hópinn í staðinn fyrir Björgvin Pál Gústavsson sem er ekki valinn að þessu sinni.

„Ég geri ráð fyrir að hann hafi verið svekktur. Það voru samt engin læti. Við erum vinir og ég sagði honum fljótlega eftir HM að ég hafi verið með þetta í huga. Hann er einn mesti keppnismaður sem ég hef spilað og unnið með. Hann er og verður ávallt ofarlega á blaði yfir menn sem ég tæki með mér í stríð. Hann er enn einn okkar besti markvörður. Þetta er öðruvísi þegar ég vel hóp á stórmót, þá vel ég besta hópinn sem ég get.“

Viðtalið við Snorra Stein má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert