FH vann spennandi Hafnarfjarðarslag

Skarphéðinn Ívar Einarsson skýtur að marki FH í kvöld.
Skarphéðinn Ívar Einarsson skýtur að marki FH í kvöld. mbl.is/Hákon

FH vann Hauka 28:25 í 19. umferð Íslandsmóts karla í handbolta á Ásvöllum í kvöld. Eftir leikinn eru Haukar með 22 stig en FH er á toppi deildarinnar með 29 stig.

Haukar byrjuðu fyrri hálfleikinn betur í kvöld og skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins. Haukar gerðu betur og náðu 4 marka forskoti í stöðunni 5:1 þegar tæplega 6 mínútur voru liðnar af leiknum.

Þá tóku FH-ingar við sér, skoruðu 3 mörk í röð og minnkuðu muninn í eitt mark í stöðunni 5:4. Eftir þetta var fyrri hálfleikur nokkuð jafn þar sem Haukar voru þó alltaf skrefinu á undan og voru einu til tveim mörkum yfir.

Aron Rafn Eðvarsson var frábær í fyrri hálfleik fyrir Hauka, varði tvö vítaskot og 9 skot í heildina. Lið FH fór ansi illa með vítin sín í fyrri hálfleik en þeir fengu fjögur víti og skoruðu aðeins úr einu þeirra.

Þegar líða tók á fyrri hálfleik juku Haukar forskotið jafnt og þétt. Þeir náðu að lokum aftur 4 marka forskoti sem þeir tóku með sér inn í hálfleikinn. Staðan í hálfleik var 16:12 fyrir Hauka.

Andri Fannar Elísson skoraði 3 mörk í fyrri hálfleik fyrir Hauka og var eitt þeirra úr víti. Eins og fyrr segir varði Aron Rafn 9 skot, þar af tvö vítaskot í fyrri hálfleik.

Hjá FH var fógetinn Ásbjörn Friðriksson með 4 mörk, þar af eitt úr víti, en Daníel Freyr Andrésson varði 4 skot fyrir FH.

Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn illa og það notfærði lið FH sér. Þeir minnkuðu muninn niður í eitt mark strax í upphafi seinni hálfleiks í stöðunni 16:15 fyrir Hauka.

Haukar skoruðu sitt fyrsta mark í seinni hálfleik úr hraðaupphlaupi þegar 5 mínútur og 52 sekúndur voru liðnar af seinni hálfleik og staðan 17:15 fyrir Hauka.

FH-ingar voru mun frískari í upphafi seinni hálfleiks og virtust aðgerðir þeirra ganga betur upp en hjá Haukum sem voru í meiri erfiðleikum með að framkvæma sínar sóknaraðgerðir.

Þegar staðan var 19:18 gat FH jafnað leikinn. Það tókst í tilraun númer tvö þegar Einar Örn Sindrason skoraði úr vítaskoti. Staðan var orðin 19:19. Haukar töpuðu boltanum í næstu sókn og fékk FH þá tækifæri til að komast yfir í fyrsta sinn í leiknum.

Aron Rafn varði laglega í sókn FH og tóku Haukar í kjölfarið leikhlé til að endurskipuleggja leik sinn enda búnir að skora 3 mörk á 13 mínútum í seinni hálfleik en FH 7 mörk.

Daníel Freyr Andrésson kom frábærlega inn í seinni hálfleikinn og varði tvö víti í röð ásamt fleiri mikilvægum skotum sem gerði það að verkum að FH náði forskoti í fyrsta sinn í leiknum í stöðunni 20:19 fyrir FH og þá var komið að Haukum að elta.

Össur Haraldsson jafnaði síðan leikinn fyrir Hauka í stöðunni 20:20 og ljóst var að spennandi lokakafli var fram undan í leiknum.

FH komst tveimur mörkum yfir í stöðunni 25:23 með tveimur mörkum í röð frá Jóhannesi Berg Andrasyni og var seinna markið hans tíunda á þessum tímapunkti í leiknum. Haukar minnkuðu muninn strax aftur í eitt mark í stöðunni 25:24 en á þessum tímapunkti leiksins virtist sem FH-ingar væru með sterkari taugar til að klára leikinn.

Jóhannes Berg skoraði sitt ellefta mark þegar hann kom FH aftur tveimur mörkum yfir í stöðunni 26:24 og 2 mínútur og 23 sekúndur eftir af leiknum. Þá tók Ásgeir Örn Hallgrímsson leikhlé enda stefndi allt í annan ósigur gegn FH í vetur og aftur eftir að hafa leitt megnið af leiknum og það mest með fjórum mörkum.

FH-ingar reyndust sterkari á lokasprettinum og unnu að lokum frækinn sigur á Haukum á Ásvöllum 27:24 eftir að hafa verið 4 mörkum undir í hálfleik.

Skarphéðinn Ívar Einarsson skoraði 6 mörk fyrir Hauka og varði Aron Rafn Eðvarðsson 16 skot, þar af 2 vítaskot og Vilius Rasimas varði 4 skot, þar af eitt vítaskot.

Hjá FH skoraði Jóhannes Berg Andrason 12 mörk fyrir FH og varði Daníel Freyr Andrésson 9 skot, þar af 2 úr vítum.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Meistaradeildin í beinni opna
Engir atburðir skráðir enn

Leiklýsing

Haukar 25:28 FH opna loka
60. mín. Jóhannes Berg Andrason (FH) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert