Þá er þetta ansi erfitt

Geir Guðmundsson úr Haukum með boltann í kvöld.
Geir Guðmundsson úr Haukum með boltann í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson

Spennustigið var hátt þegar Haukar tóku á móti FH á Ásvöllum í Íslandsmóti karla í handbolta í kvöld. Skemmst er frá því að segja að Haukar töpuðu leiknum með þremur mörkum eftir að hafa leitt með fjórum mörkum í fyrri hálfleik. Ásgeir Örn Hallgrímsson, þjálfari Hauka, var að vonum ansi svekktur með frammistöðu Hauka í seinni hálfleik þegar mbl.is ræddi við hann eftir leikinn.

Haukar léku frábæran fyrri hálfleik og leiddu með fjórum mörkum en síðan er eins og liðið mæti ekki í seinni hálfleikinn. Hvað varð um þína menn í seinni hálfleik?

„Það er bara mjög góð spurning. Við mætum værukærir og slappir í seinni hálfleikinn. Við bara höldum ekki út vörnunum og leyfum þeim að skjóta úr alltof góðum færum þegar hönd dómara er komin upp og það lekur allt inn hjá þeim. Sóknarlega spilum við okkur í fín færi en klikkum á alltof mörgum dauðafærum. Við klikkum á vítum í seinni hálfleik ásamt því að gera alltof mikið af ódýrum klaufamistökum sem kosta okkur sóknirnar.

Varnarlega bregðumst við ekkert við hægri vængnum hjá FH í seinni hálfleik og hann (væntanlega Jóhannes Berg Andrason) fær að gera bara það sem honum sýnist og þrumaði okkur bara í spað.“

Markvarslan hjá Haukum er samt mjög góð. Aron Rafn ver 16 skot, þar af 2 víti og Vilius Rasimas ver 4 skot, þar af eitt víti. Með þessa tölfræði myndi maður ætla að liðið myndi vinna en það varð ekki raunin.

„Ég er bara innilega sammála þér en þegar þú ert ekki klókari og betri fram á við þá er þetta bara ansi erfitt. Við töpuðum þessum leik ekki út af lélegum varnarleik. Það var sóknarleikurinn sem varð okkur að falli í kvöld.“

Haukar leika næst á móti Fjölni. Á pappírum eru Haukar með betra lið. Má ekki segja að Haukar verði að vinna þann leik?

„Þú veist hvernig við þjálfarar erum. Við viljum aldrei tala um skyldusigra eða að verða. En ef allt er eðlilegt og mínir menn mæta af fullum krafti bæði í fyrri og seinni hálfleik þá geri ég ráð fyrir því að við vinnum Fjölni,“ sagði Ásgeir Örn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert