FH vann sér inn montréttinn í Hafnarfirði eftir sigur á grönnum sínum í Haukum á þeirra heimavelli eftir spennandi leik í kvöld. Ásbjörn Friðriksson, eða Fógetinn eins og hann er stundum kallaður, átti fínan leik og skoraði 6 mörk fyrir FH. Spurður út í sætan sigur sinna manna í kvöld sagði Ásbjörn þetta:
„Hrikalega sætt að vinna þennan leik, sérstaklega eftir frekar dapran fyrri hálfleik. Það var ekkert stórkostlegt að í leiknum okkar en ef þú nýtir ekki dauðafærin þín og býður upp á hraðaupphlaup í bakið á þér þá verður þetta bara mjög erfitt á móti liði eins og Haukum og það útskýrir af hverju við fórum inn í hálfleikinn fjórum mörkum undir.
Við þurftum að fara inn í hálfleik, ræða málin og þurftum að finna dýrið í sjálfum okkur því að við vorum of linir í fyrri hálfleik sem við erum ekki vanir að vera og það er gott að þekkja liðið sitt svona vel í seinni hálfleik og við þurfum að ná fleiri svona toppum eins og við náðum í seinni hálfleik.“
Þegar það eru 10 mínútur eftir af leiknum þá virtist þetta snúast um hvort liðið væri með sterkari taugar þar sem bæði lið gátu ítrekað náð forskotinu en á endanum kom það í hlut FH að ná forskoti.
„Við fórum líka með góð dauðafæri þegar við gátum komist yfir fyrst og fengum mark í bakið en þegar okkur tókst að komast yfir þessa línu og komast yfir þá náðum við góðum vörnum og vorum klókir í öllum okkar aðgerðum í kjölfarið. Síðan snögghitnaði Jóhannes Berg í lokin og setur þrjú gríðarlega mikilvæg mörk sem klárar þetta fyrir okkur.“
Næsti leikur hjá ykkur er næsta sunnudag á móti Aftureldingu sem er að berjast um efstu sætin. Hvað tekur FH með sér út úr þessum leik í leikinn gegn þeim?
„Við eigum eftir þrjá hörkuleiki. Í byrjun febrúar vorum við í mjög þéttu prógrammi og ég sagði þá í viðtali að það sem okkur vantaði væri að tengja saman góða markvörslu, góða vörn og góðan sóknarleik. Það vantaði þá og það vantaði í fyrri hálfleik í kvöld en kom svo sannarlega í seinni hálfleik. Þegar þetta tikkar allt saman þá erum við ofboðslega góðir og það á líka við um mörg önnur lið í deildinni.
Núna snýst þetta um að vera heitir í þessum leikjum sem eru eftir í deildinni og koma heitir inn í úrslitakeppnina. Við vitum að við getum spilað mun betur en í nokkrum leikjum eftir áramót og við ætlum að sýna það bara strax á sunnudaginn gegn Aftureldingu,“ sagði Ásbjörn í samtali við mbl.is.