„Það er mjög gaman að þessar síðustu þrjár umferðir eru spennandi og allir þurfa að mæta til leiks, ekki bara verið að bíða eftir úraslitakeppni,“ sagði Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari Vals eftir 37:32-sigur liðsins gegn nýkringdum bikarmeisturum Fram á Hlíðarenda í dag. Sigurinn kom Val upp í annað sæti í úrvalsdeild karla í handbolta.
„Við vorum góðir í 50 mínútur, það var í lokin sem þeir koma aðeins til baka, eðlilega, þeir eru með frábært lið og hafa skorað mest í deildinni. Þeir eru með helling af sóknarvopnum og spila góða vörn líka svo þetta var góður sigur,“ sagði Óskar í viðtali við mbl.is eftir leikinn.
„Framarar hafa verið mun betri en við í deildinni, fyrri leikurinn fór jafntefli og þeir unnu okkur í bikarnum. Þeir voru með frumkvæðið í þeim leikjum og voru grimmari og annað en það var meiri orka í okkur í dag. Þeir voru að spila miðvikudag og laugardag en Björgvin var góður og margt sem gekk ágætlega, þetta var enginn ofurleikur hjá okkur en góður sigur.“
Framarar voru bikarmeistarar á laugardaginn og á leiðinni í úrslitaleikinn slógu þeir Val út í átta liða úrslitum. Einar Jónsson þjálfari Fram sagði þá þó líklegast úr baráttunni um deildarmeistaratitilinn eftir leikinn.
„Þeir voru bara örlítið betri í bikarnum gegn okkur og ég óska þeim innilega til hamingju með bikarmeistaratitilinn.
Þeir slógu okkur út í átta liða, við vorum með einhver meiðsli þá og þreyttir líka þegar þessi átta liða úrslit voru í desember þó að það sé engin afsökun, þeir voru bara betri þar. Enginn hefndarhugur í dag. Fyrir Fram, Val, FH og Aftureldingu eru bara allir leikir úrslitaleikir og það er gaman.
Mér fannst mjög flott hjá Fram að þeir töluðu um þennan leik strax eftir bikarleikinn. Mér finnst frábært hjá Einari og Framörum hvað þessir ungu gaurar eru orðnir góðir. Þeir eru með Rúnar og þessa eldri, eru bikarmeistarar og eru í baráttu í deildinni, það eru þrjár umferðir eftir og það getur allt gerst.“
Valur er einu stigi á eftir toppliðin FH þegar þrjár umferðir eru eftir af deildarkeppninni.
„Auðvitað þurfa einver úrslit að falla með okkur. Við erum einu stigi á eftir FH og það þarf eitthvað að gerast. Við erum búnir að spila tvisvar við FH þannig við mætum þeim ekki. Þeir unnu Haukana í gær og hafa verið að sigla þessu nokkuð örugglega og eru líklegastir það er klárt. Við ætlum að gefa allt í alla leiki.
Aðal málið líka er að það er barátta um deildarmeistaratitilinn, það er barátta um að komast í úrslitakeppnina og barátta um fall. Það er mjög gaman að þessar síðustu þrjár umferðir eru spennandi og allir þurfa að mæta til leiks, ekki bara verið að bíða eftir úraslitakeppni.“