Gunnar Magnússon mun láta af störfum sem þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik að yfirstandandi keppnistímabili loknu. Aðstoðarþjálfari hans, Stefán Árnason, tekur þá við liðinu og um leið við hlutverki yfirþjálfara yngri flokka hjá félaginu.
Gunnar er á sínu fimmta tímabili sem þjálfari Aftureldingar og varð liðið bikarmeistari undir hans stjórn árið 2023 auk þess að hafna í öðru sæti í einvígi sínu við FH um Íslandsmeistaratitilinn á síðasta ári.
Stefán hefur verið aðstoðarþjálfari Gunnars undanfarin þrjú ár.
„Við kveðjum Gunna Magg með söknuði en á sama tíma gleður okkur mikið að fá Stefán við stjórnborðið.
Það eru spennandi tímar fram undan hjá okkur í handknattleiksdeild Aftureldingar! Takk Gunni fyrir þitt frábæra framlag til klúbbsins og við vonumst til að kveðja þig sómasamlega á leikvellinum í úrslitakeppninni í vor!“ sagði meðal annars í tilkynningu frá handknattleiksdeild Aftureldingar.