Íslenska landsliðskonan til Svíþjóðarmeistaranna

Elín Klara Þorkelsdóttir.
Elín Klara Þorkelsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Elín Klara Þorkelsdóttir mun ganga til liðs við sænska handknattleiksfélagið Sävehof í sumar.

Þetta tilkynntu Haukar á heimasíðu sinni en Elín Klara, sem er einungis tvítug, er uppalin hjá Hafnarfjarðarfélaginu og hefur leikið með liðinu allan sinn feril.

Hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik fyrir félagið þegar hún var 15 ára gömul og hefur verið valin besti leikmaður úrvalsdeildarinnar undanfarin tvö tímabil.

Þá fór hún á sitt fyrsta stórmót með íslenska kvennalandsliðinu í nóvember á síðasta ári þegar Ísland tók þátt í lokakeppni Evrópumótsins í Austurríki þar sem hún var besti leikmaður liðsins.

Sävehof er ríkjandi Svíþjóðarmeistari og er liðið sem stendur í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar með tveggja stiga forskot á Skuru eftir nítján umferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert