Markahæstur í Meistaradeildinni – dramatík í Ungverjalandi

Haukur Þrastarson skoraði fimm.
Haukur Þrastarson skoraði fimm. mbl.is/Eyþór

Dinamo Búkarest frá Rúmeníu sigraði Fredericia, 37:32, á útivelli í lokaumferð A-riðils í Meistaradeild Evrópu í handbolta í kvöld.

Haukur Þrastarson átti flottan leik fyrir Búkarestliðið og var markahæstur með fimm mörk, ásamt fjórum öðrum. Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia, sem Guðmundur Guðmundsson þjálfar.

Dinamo er komið áfram í útsláttarkeppnina en Fredericia er úr leik í keppninni.

Veszprém frá Ungverjalandi mátti þola tap á heimavelli gegn Füchse Berlin í miklum spennuleik.

Füchse Berlin var með 31:27-forskot þegar skammt var eftir. Þá skoraði Veszprém fimm mörk af næstu sex og jafnaði í 32:32 þegar 27 sekúndur voru eftir. Tim Freihofer varð síðan hetja þýska liðsins, því hann skoraði sigurmarkið þremur sekúndum fyrir leikslok.

Aron Pálmarsson skoraði fjögur mörk fyrir Veszprém og Bjarki Már Elísson tvö. Þrátt fyrir úrslitin er Veszprém komið í átta liða úrslit.

Füchse Berlin þarf að treysta á að Orri Freyr Þorkelsson og félagar í Sporting vinni ekki Viktor Gísla Hallgrímsson og félaga í Wisla Plock á útivelli til að fara beint í átta liða úrslitin, annars bíður liðsins umspil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert