Ákveðið var að hætta vináttulandsleik Svíþjóðar og Rúmeníu í handknattleik kvenna í gær eftir að leikmaður Rúmeníu rotaðist.
Erozav Grosav lenti í harkalegu samstuði við liðsfélaga sinn, markvörð Rúmeníu. Grosav fékk fyrst öxl markvarðarins í höfuðið og svo hné hennar. Lá hún meðvitundarlaus eftir og hlaut aðhlynningu.
Landsliðsþjálfari Rúmeníu óskaði eftir því við dómara að leiknum yrði hætt og urðu þeir við þeirri beiðni þegar tæplega sex mínútur lifðu leiks.
Grosav var með meðvitund þegar hún var flutt úr keppnishöllinni á sjúkrahús í Nyköping og gekkst þar undir frekari rannsóknir.
„Hún er búin að fara í röntgenmyndatöku á höfði, öxlum og bringu og fékk jákvæða niðurstöðu.
Þetta er ekkert alvarlegt og hún var komin aftur á liðshótelið seint í gærkvöldi,“ sagði Daniel Vandor, fjölmiðlafulltrúi sænska handknattleikssambandsins, í samtali við sænska ríkisútvarpið.