Það var sannkallaður toppslagur í handboltanum í kvöld þegar FH tók á móti Aftureldingu í Kaplakrika og lauk leiknum með sigri Hafnfirðinga 34:29.
Var þetta leikur í 20. umferð Íslandsmóts karla í handbolta. Eftir leikinn er FH á toppnum með 31 stig og Afturelding er í 4. sæti með 27 stig.
Fyrri hálfleikur var gríðarlega jafn. FH-ingar virtust ætla að vera sterkari aðilinn í fyrri hálfleik þegar þeir náðu þriggja marka forskoti í stöðunni 10:7 en fram að því hafði munurinn verið 1-2 mörk.
Mosfellingar voru ekki á því að hleypa FH framúr sér og tóku leikhlé. Eftir það unnu gestirnir sig inn í leikinn og jöfnuðu fyrst í stöðunni 14:14. Þegar innan við 30 sekúndur voru eftir komust Mosfellingar yfir í stöðunni 16:15 með marki frá Ihor Kopyshynskyi og var það staðan í hálfleik.
Fógetinn sjálfur, Ásbjörn Friðriksson átti stórleik í fyrri hálfleik og skoraði 7 mörk, þar af tvö úr vítum. Daníel Freyr Andrésson varði 4 skot fyrir FH.
Blær Hinriksson skoraði 5 mörk fyrir Aftureldingu og Einar Baldvin Baldvinsson varði 6 skot fyrir Mosfellingar.
Mosfellingar byrjuðu leikinn í seinni hálfleik en gerðu lélega tilraun til að skora sirkusmark þegar þeir gátu náð tveggja marka forskoti. Þess í stað jafnaði FH leikinn í stöðunni 16:16 með marki frá Jakobi Martin Ásgeirssyni.
FH-ingar mættu beittari inn í seinni hálfleikinn og settust aftur í bílstjórasæti leiksins í stöðunni 20:19 fyrir FH. Heimamenn náðu síðan þriggja marka forskoti í stöðunni 23:20. Það sem um munaði var frábær leikur Jóns Bjarna Ólafssonar á línunni sem notfærði sér framliggjandi vörn Mosfellinga gríðarlega vel á þessum kafla. Á sama tíma tókst Mosfellingum að halda Ásbirni Friðrikssyni frá markinu en þá opnuðust allar gáttir fyrir Jón Bjarna sem skoraði 4 af fyrstu 6 mörkum FH-inga auk þess sem hann fiskaði víti.
Afturelding tók leikhlé í stöðunni 24:21 fyrir FH. Það virðist hafa skilað árangri því næstu tvö mörk komu frá Mosfellingum og þegar 15 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 24:23 fyrir FH.
Mosfellingum tókst að jafnan leikinn í stöðunni 25:25 og 10 mínútur eftir af leiknum en Fógetinn sjálfur, Ásbjörn Friðriksson skoraði þá sitt níunda mark fyrir FH og staðan orðin 26:25 fyrir FH.
FH gerði enn betur og náði enn einu sinni upp þriggja marka forskoti í stöðunni 28:25 þegar rétt um 6 mínútur voru eftir af leiknum og þá tóku Mosfellingar leikhlé enda síðustu forvöð fyrir þá að vinna sig aftur inn í leikinn. Það gekk ekki betur en svo að FH-ingar komust fjórum mörkum yfir í stöðunni 29:25 og sléttar 6 mínútur eftir af leiknum.
Mosfellingar reyndu hvað þeir gátu að vinna sig aftur inn í leikinn en FH-ingar voru einfaldlega sterkari og klókari á endasprettinum. Fór svo að Hafnfirðingar endurheimtu toppsætið sitt með 5 marka sigri 34:29.
Ásbjörn Friðriksson skoraði 9 mörk, þar af 3 úr vítum. Daníel Freyr Andrésson varði 8 skot.
Blær Hinriksson skoraði 6 mörk fyrir Aftureldingu og varði Einar Baldvin Baldvinsson 7 skot og Brynjar Vignir Sigurjónsson 1 skot.