„FH-ingar eru bara massívari en við“

Gunnar Magnússon í leiknum í kvöld.
Gunnar Magnússon í leiknum í kvöld. mbl.is/Ólafur Árdal

Afturelding mátti þola tap gegn FH í Íslandsmóti karla í handbolta í kvöld. Gunnar Magnússon þjálfari Mosfellinga var svekktur með slakan seinni hálfleik hjá sínu liði þegar mbl.is náði tali af honum eftir leikinn.

Fimm marka tap gegn FH. Markatalan gefur kannski ekki alveg rétta mynd af niðurstöðu leiksins en gætir þú sagt mér frá þínum bæjardyrum séð hvað verður þess valdandi að Afturelding tapar hér í kvöld?

„Við spilum frábæran fyrri hálfleik en auðvitað er mikið áfall að missa Þorvald út strax eftir 5 mínútur úr vörninni. Við erum nú þegar þunnskipaðir í hans stöðu. Það breytti því ekki að við náðum frábærum fyrri hálfleik, spilum frábæra vörn og gefum fá færi á okkur. Förum með forskot inn í hálfleikinn.

Síðan er það seinni hálfleikurinn sem að svíður rosalega. Allir þessir feilar í bæði vörn og sókn sem gera það að verkum að við fáum fullt af mörkum í bakið. Það er bara of mikið á móti FH. Varnarleikurinn var erfiður í seinni hálfleik þar sem þeir skoruðu of einföld mörk á okkur. Munurinn á þessum liðum er sá að FH-ingar eru bara massívari en við. Þeir gera færri mistök og við erum of mistækir.“

Afturelding byrjar með boltann í seinni hálfleik og var einu marki yfir. Þið farið í fyrstu sókn þar sem þið getið náð tveggja marka forskoti og reynið sirkúsmark. Var það ekki full hrokafullt hjá þínum leikmönnum?
„Jú, þetta er hræðileg sókn og gaf kannski svolítið tóninn í seinni hálfleik. Sem þjálfari hefði ég auðvitað viljað fá betri sókn en kannski bara dæmigert fyrir þennan seinni hálfleik.“
Jón Bjarni Ólafsson línumaður FH skoraði 4 af fyrstu 6 mörkum FH í seinni hálfleik. Spurður út í hvort agressíf 5-1 vörn Aftureldingar hafi sett of mikinn fókus á Ásbjörn Friðriksson og gefið línumanninum knáa of lausan tauminn sagði Gunnar þetta.
„Hann fer ítrekað á vinstri bakvörðinn okkar og rykkir undir og skorar fjórum sinnum. Við bara réðum ekki við það. Ég skipti um mann en það tók of langan tíma að bregðast við okkur. Þetta bara hélt ekki vatni hjá okkur í seinni hálfleik.“
Gunnar Magnússon hefur tilkynnt að hann muni hætta með lið Aftureldingar eftir þetta tímabil. Spurður út í ákvörðun sína.
„Þetta er ákvörðun sem ég tók í byrjun janúar þannig að þetta er í raun ekki nýtekin ákvörðun. Félagið vildi bara taka sinn tíma í að tilkynna þetta um leið og þeir myndu tilkynna nýjan þjálfara. Þetta er ekkert sem er að koma á óvart núna og hefur verið vitað innan okkar raða í lengri tíma.“
Ertu búinn að ákveða hvað tekur við hjá þér?
„Nei en vonandi skýrist það á endanum. Ég ætla alls ekki að hætta í handbolta. Ég er búinn að vera lengi í þessu en hvergi nærri hættur.“
Eru allar vonir úti fyrir Aftureldingu um að geta orðið deildarmeistarar eftir þennan tapleik?
„Já klárlega og ég tek þetta tap sem alvöru áminningu því eins og ég sagði við strákana áðan þá dugir svona frammistaða ekki í úrslitakeppninni,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert