FH endurheimti toppsætið í Íslandsmóti karla í handbolta eftir sigur á Aftureldingu í kvöld. Sigursteinn Arndal þjálfari FH var að vonum sáttur með sigurinn þegar mbl.is náði af honum tali strax eftir leik.
Fimm marka sigur á móti Aftureldingu í kvöld sem færir ykkur aftur í toppsætið. Þú hlýtur að vera ánægður með það, ekki satt?
„Þetta er staðurinn sem við viljum vera á og stefnum alltaf að en annars er ég mjög ánægður með sigur á mjög sterku liði Aftureldingar.“
FH byrjar fyrri hálfleikinn ágætlega en er marki undir inn í hálfleikinn.
Hvað fór fram í klefa FH í hálfleik sem var þess valdandi að þið vinnið að lokum fimm marka sigur?
„Það var svo sem ekkert stórkostlegt. Við vissum að við þyrftum að halda áfram með það sem við vorum að gera. Það sem þurfti að laga var að við vorum að fá á okkur full ódýr mörk á milli 1 og 2 í vörninni og við vitum að við eigum að vera betri í því. Síðan vildum við betri fráköst.
Strákarnir bara löguðu þetta og ég er gríðarlega ánægður með hvernig við spiluðum varnarleikinn í seinni hálfleik og að sama skapi hversu þolinmóðir mínir menn voru í sókninni sem gaf okkur mikið af góðum færum þegar við vorum ekki að taka neina óþarfa sénsa.“
Var þetta sigur varnarinnar í kvöld í ljósi þess að markvarslan er sjö skot varin?
„Þetta var sigur FH-liðsins. Ég veit ekki hversu oft markverðirnir hafa bjargað okkur og í dag þurfti vörnin að leggja aðeins meira á sig og hún gerði það vel. Þetta var bara FH-liðsheildarsigur.“
Afturelding fer í mjög agressíva 5-1 vörn í seinni hálfleik og nánast tekur Ásbjörn úr umferð sem losar vel um fyrir Jón Bjarna á línunni sem vann mjög vel úr þeirri stöðu. Var þetta eitthvað sem var undirbúið á æfingasvæðinu?
„Þetta var í rauninni ekkert mikið breytt vörn hjá þeim. Þeir voru í þessari 5-1 vörn í fyrri hálfleik en við komum með nýjar lausnir inn í seinni hálfleikinn og þetta var ein af þeim.“
Næsti leikur er gegn KA fyrir norðan. Markmiðið hlýtur að vera að sækja sigur þangað, ekki satt?
„Ég man ekki eftir því að það hafi nokkurn tíma verið auðvelt að sækja sigur norður. Það er erfiður útivöllur og við þurfum að eiga frábæran leik til að sækja tvö stig, en ég hef fulla trú á að við getum það.“
Er eitthvað eitt sem þú vilt að fari betur í næsta leik til að byggja ofan á góða frammistöðu í kvöld gegn KA í næsta leik?
„Já, bara þetta sem við ræddum um fyrri hálfleikinn, að stoppa þessi full ódýru mörk sem komu á milli 1 og 2 en við leystum það svo sem ágætlega í seinni hálfleik,“ sagði Sigursteinn í samtali við mbl.is.