Aron Pálmarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik, er spenntur fyrir leik gegn Grikklandi í undankeppni EM 2026 á morgun þrátt fyrir töluverð skakkaföll í leikmannahópi Íslands.
„Það er bara gaman. Þetta hefur alveg gerst áður. Það eiga nú flestir hérna landsleik og maður þekkir þá alla, þannig að þetta verður bara spennandi og skemmtilegt,“ sagði Aron í samtali við RÚV fyrir æfingu í Chalkida í dag.
Spurður hvort miklu álagi væri um að kenna að margir leikmenn Íslands séu fjarverandi að þessu sinni sagði hann:
„Það er stór spurning. Já, já, álag og allt það. Við sjáum það nú ekki gerast rosalega oft hjá okkur, að það vanti svona marga. En kannski spilar það inn í að við erum nýkomnir aftur eftir stórmót, og mikið álag. En það er bara eitthvað sem fylgir þessu.“
Hverju má eiga von á frá Grikkjum?
„Þeir eru góðir hérna heima og fá höllina og stemninguna með sér. Við þurfum að vera klárir í það. Ef við leyfum þeim að gera sóknarlega það sem þeir vilja gera geta þeir verið agaðir og flottir. Við þurfum aðeins að veiða þá í nokkrar gildrur. Annars þurfum við kannski að einblína meira á okkur,“ sagði Aron.
Liðin mætast á morgun klukkan 17 og svo aftur í Laugardalshöll næstkomandi laugardag. Er um skyldusigra að ræða?
„Já, svona miðað við liðin. En að sama skapi þá vantar fullt af leikmönnum hjá okkur og þetta er tiltölulega nýtt lið hjá okkur þar sem menn eru óvanir að spila saman. Í nútíma handbolta getur auðvitað allt gerst, en klárlega ætlum við okkur fjögur stig,“ sagði landsliðsfyrirliðinn að lokum.