Ég tek sökina á mig

Stefán Arnarson.
Stefán Arnarson. mbl.is/Ólafur Árdal

Nýkrýndir bikarmeistarar Hauka töpuðu fyrir Fram, 26:23, í Íslandsmóti kvenna í handbolta í kvöld.

Með tapinu eru Framkonur nánast búnar að tryggja sér annað sætið í deildinni en fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum. Stefán Arnarson þjálfari Hauka var að vonum svekktur með tapið og hafði þetta að segja þegar mbl.is tók hann tali og spurði út í leikinn.

„Framliðið var bara miklu betra en við á öllum sviðum leiksins og átti sigurinn skilið. Við vorum ekki á okkar besta degi og ég tek sökina á mig en ég, við verðum að gera betur.“

Í hverju felst það að Haukar þurfi að gera betur ef við berum bara saman leikinn á móti þeim í úrslitaleik bikarsins þar sem þið unnuð nokkuð örugglega?

„Þetta eru bara mjög jöfn lið og þær duttu á sinn leik í dag á meðan við vorum ekki að smella. Við vorum lélegar varnarlega og nýttum færin okkar mjög illa í sókninni. Bara miklu betra lið Fram í kvöld sem átti skilið þessi tvö stig.“

Haukar tapa gríðarlegu magni af boltum í leiknum. Ef ég man rétt þá voru það 7 boltar í fyrri hálfleik og ekki færri í þeim seinni. Kanntu skýringar á þessu?

„Ef maður ætlar að ná árangri þá þarf mikinn vilja og vinnusemi. Okkur vantaði þessi element í kvöld. Þetta er bara eitthvað sem ég og Díana þurfum að skoða.“

Vanmátu Haukar lið Fram í kvöld eftir bikarsigurinn?

„Það er af og frá. Fram er frábært lið sem er fyrir ofan okkur í deildinni. Það var ekkert vanmat og þetta var bara ekki okkar dagur.“

Næsti leikur er á móti Gróttu sem Haukar slógu út í undanúrslitum bikarsins. Mun sigur í þeim leik halda möguleikum Hauka um annað sætið opnum?

„Annað sætið er farið, það er ljóst. Fram á vinninginn í innbyrðisviðureignum gegn okkur. Við verðum bara að fara sömu leið og í fyrra. Þá lentum við í þriðja sætinu og unnum Fram í undanúrslitum og það er bara markmiðið núna,“ sagði Stefán í samtali við mbl.is.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert