Er að koma með lítinn Framara í heiminn

Arnar Pétursson er þjálfari Fram.
Arnar Pétursson er þjálfari Fram. mbl.is/Ólafur Árdal

Arnar Pétursson þjálfari Fram var ánægður með þriggja marka sigur á Haukum, 26:23, í 17. umferð úrvalsdeildar kvenna í handbolta í kvöld. Með sigrinum er nánast öruggt að Fram endar í öðru sæti deildarinnar.

Fram er í öðru sæti með 28 stig en Haukar í þriðja með 26.

Spurður út í sigurinn í kvöld sagði Arnar þetta.

„Mér fannst við bara spila heilt yfir góðan varnarleik allan leikinn. Síðan náðum við að spila eins og við vildum og fengum frábæra markvörslu með. Sóknarlega vorum við miklu ferskari og okkur tókst að láta boltann vinna vel.“

Sé það ekki gerast

Nú er stutt síðan að Fram tapaði fyrir þessu sama liði í úrslitaleik bikarkeppninnar. Ef við berum saman þessa tvo leiki, hvað var Fram að gera betur í kvöld?

„Þá vorum við í miklu basli sóknarlega og nýttum færin okkar illa. Eftir á að hyggja þá sat undanúrslitaleikurinn gegn Val enn þá í okkur þegar við mættum í úrslitaleikinn gegn Haukum. Ég og Rakel gerðum ákveðin mistök í því öllu saman að ná að rótera ekki aðeins betur eins og t.d. með Valgerði sem kom frábær inn í leikinn í kvöld. Við vorum bara ferskari í kvöld og náðum að klára sóknirnar betur í kvöld.“

Næsti leikur er gegn Val á laugardag. Er útséð um að Valskonur verði deildarmeistarar?

„Valur þarf að tapa gegn okkur, Haukum og síðan auka stigi til viðbótar þannig að ég sé það bara ekki gerast.“

Næsti kafli hlýtur þá að vera úrslitakeppnin. Fram var með þessum sigri í kvöld nánast að tryggja sér annað sætið í deildinni. Íslandsmeistaratitillinn hlýtur þá að vera næsta markmið ykkar?

„Já, okkur langar í þann titil. Við þurfum bara að klára þessa deild og koma svo á fullu skriði inn í þessa úrslitakeppni. Það eru samt róteringar hjá okkur í ljósi þess að Karen dettur út. Við fögnum því samt að sjálfsögðu að hún er að koma með lítinn Framara í heiminn á seinni hluta ársins. Það skapar smá rót á liðinu og við þurfum aðeins að laga sóknarleikinn og þróa hann í ljósi þeirra breytinga.“

Er eitthvað sem þú vilt sjá þitt lið gera betur í næsta leik á móti Val?

„Heilt yfir er ég bara mjög ánægður með leikinn hjá stelpunum í kvöld. Þær spiluðu vel og voru flottar. Ef ég á að krefjast einhvers þá er að ég myndi vilja sjá þær keyra hraðar og betur upp völlinn,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert