Charalampos Mallios, fyrirliði gríska karlalandsliðsins í handknattleik, segir að Grikkir séu ekki smeykir við að mæta sterku liði Íslands í Chalkida í Grikklandi í dag en klukkan 17 hefst þar leikur liðanna í undankeppni EM 2026.
„Á heimavelli erum við ekki hræddir við neina mótherja, við höfum sýnt góða leiki gegn stóru þjóðunum og eina liðið sem hefur unnið okkur hér í Chalkida er Króatía, lið sem hefur unnið til margra verðlauna,“ segir Mallios á heimasíðu gríska handknattleikssambandsins.
„Við erum ekki hræddir, við mætum vel undirbúnir til leiks og munum leggja allt í sölurnar til að vinna okkur sæti á EM 2026. Ég er sannfærður um að við náum því takmarki og við erum ekki smeykir við að segja að við ætlum okkur að ná í hagstæð úrslit gegn Íslandi,“ segir Mallios, sem er 37 ára gamall leikmaður Cottbus í Þýskalandi.
Markvörður Grikkja, Petros Bukovinas, tekur í sama streng. „Við vitum að leikirnir gegn Íslandi eru mest krefjandi leikirnir í þessari undankeppni en við munum spila til sigurs, bæði heima og á Íslandi á laugardaginn. Það hefur sýnt sig að Chalkida er mjög sterkur heimavöllur og ég hef alla trú á að við getum unnið. Ég er viss um að samheldnin í liðinu mun færa okkur góð úrslit,“ segir Bukovinas sem leikur með Coburg í Þýskalandi.
Grikkir eru með tvö stig eftir tvo leiki en þeir unnu Georgíu á heimavelli í Chalkida, 27:26, og töpuðu fyrir Bosníu á útivelli, 23:22. Ísland vann Bosníu 32:26 á heimavelli og Georgíu 30:25 á útivelli.