Ísland vann sannfærandi sigur á Grikklandi, 34:25, í 3. riðli undankeppni Evrópumóts karla í Chalkida í Grikklandi í dag.
Eftir er Ísland efst í riðlinum með 6 stig eftir þrjá leiki en Bosnía og Grikkland eru með 2 stig og Georgía ekkert. Tvö efstu liðin í riðlinum fara á EM 2026 og liðið í þriðja sæti getur líka komist þangað.
Bosnía og Georgía mætast síðan í Bosníu á morgun og svo aftur á laugardag en þá tekur Ísland á móti Grikklandi í Laugardalshöllinni.
Íslenska liðið var mun sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og áttu Grikkir fá svör við sóknar- og varnarleik Íslands.
Ísland komst fljótlega í góða forystu og Grikkir áttu í erfiðleikum með að sækja á íslensku vörnina.
Gríska liðið tapaði ótal oft boltanum í sókn og Ísland nýtti sér það með skyndisóknum en munurinn var tíu mörk í hálfleik. 19:9, Íslandi í vil.
Seinni hálfleikurinn var jafnari en íslenska liðið breytti þó nokkuð til og fengu allir þeir leikmenn sem spiluðu ekki fyrri hálfleikinn að spreyta sig. Meðal annars skoruðu Andri Már Rúnarsson og Benedikt Gunnar Óskarsson sín fyrstu landsliðsmörk og Ísak Steinsson markvörður kom inn á í sínum fyrsta A-landsleik.
Þrátt fyrir það náði Ísland að halda í forystu sína, munurinn var níu til ellefu mörk allan síðari hálfleikinn, og liðið vann að lokum mjög sannfærandi sigur.
Kristján Örn Kristjánsson og Óðinn Þór Ríkharðsson voru markahæstir í liði Íslands en þeir skoruðu sex mörk hvor.