Svakalegar lokamínútur á Selfossi

Selfyssingurinn Harpa Valey Gylfadóttir brýst í gegnum vörn Gróttu.
Selfyssingurinn Harpa Valey Gylfadóttir brýst í gegnum vörn Gróttu. Eggert Jóhannesson

Selfoss og Grótta gerðu jafntefli, 23:23, í 17. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik á Selfossi í kvöld.

Selfoss er í fjórða sæti deildarinnar með 14 stig, jafnmörg og ÍR sem er í fimmta sætinu en þrettán stigum á eftir Haukum  sem eru í þriðja sæti.

Grótta situr áfram á botninum en nú með sex stig, stigi á eftir ÍBV.

Þær vínrauðu náðu fljótlega frumkvæðinu og höfðu þriggja marka forskot um miðjan fyrri hálfleikinn. Í stöðunni 8:5 kom gott áhlaup frá Gróttukonum sem jöfnuðu 9:9. Staðan var 11:10 í leikhléi. Selfyssingar voru í brasi í sókninni á köflum, Grótta var búin að vinna heimavinnuna og las sóknarhreyfingar Selfyssinga vel. Línuspilið gekk reyndar ágætlega hjá heimakonum og Elínborg var sterk inni á línunni í fyrri hálfleiknum.

Fyrstu tíu mínúturnar í seinni hálfleiknum voru skelfilegar hjá Gróttukonum. Selfoss skoraði fimm mörk í röð og til þess að bíta höfuðið af skömminni fékk Karlotta Óskarsdóttir að líta rauða spjaldið eftir þrjár brottvísanir.

Þarna voru Selfyssingar komnir með fimm marka forskot, 17:12, og brekkan orðin brött hjá Seltirningum. Grótta tók leikhlé og lagði þar línurnar að hressilegri endurkomu. Þær spiluðu frábæra vörn í kjölfarið og náðu að jafna 20:20 þegar rúmar átta mínútur voru eftir af leiknum.

Lokakaflinn var svakalegur og jafnt á öllum tölum. Katla María Magnúsdóttir jafnaði fyrir Selfoss, 23:23, þegar rúm mínúta var eftir og það reyndist síðasta mark leiksins. Grótta skaut í stöng í næstu sókn og Selfoss hafði hálfa mínútu til að klára leikinn. Þær misstu boltann og Grótta brunaði í hraðaupphlaup en Rut Bernódusdóttir skaut framhjá þegar fjórar sekúndur lifðu leiks.

Sara Dröfn Richardsdóttir var markahæst Selfyssinga með 6 mörk, þar af fjögur í seinni hálfleiknum. Ágústa Tanja Jóhannsdóttir varði 10 skot og átti nokkrar risavörslur.

Hjá Gróttu var Katrín Anna Ásmundsdóttir markahæst með 6 mörk en hún var frábær í seinni hálfleiknum og steig upp þegar mest á reyndi. Andrea Gunnlaugsdóttir varði 10 skot í marki Gróttu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Aðrir virkir leikir

Grikkland 25:34 Ísland opna
60. mín. Stefanos Michailidis (Grikkland) skoraði mark
Fram 26:23 Haukar opna
60. mín. Leik lokið Framkonur vinna þriggja marka sigur.

Leiklýsing

Selfoss 23:23 Grótta opna loka
60. mín. Ída Margrét Stefánsdóttir (Grótta) á skot í stöng
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert