Færeyjar vígðu nýja þjóðarhöll með dramatísku jafntefli

Elias Ellefsen á Skipagötu skoraði 11 mörk fyrir Færeyjar.
Elias Ellefsen á Skipagötu skoraði 11 mörk fyrir Færeyjar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Færeyska karlalandsliðið í handknattleik vígði nýja þjóðarhöll í Þórshöfn, Við Tjarnir, með því að gera dramatískt jafntefli við Holland, 32:32, í undankeppni EM 2026 í gærkvöldi.

Smekkfullt var í glæsilegri höllinni þar sem 3.000 áhorfendur voru mættir og komust færri að en vildu.

Færeyjar voru yfir, 18:14, í hálfleik en þegar líða tók á síðari hálfleik náðu Hollendingar stjórninni og virtust vera að tryggja sér eins marks sigur þegar Leivur Mortensen jafnaði metin fyrir heimamenn þegar aðeins tvær sekúndur voru til leiksloka.

Elias Ellefsen á Skipagötu var markahæstur hjá Færeyjum með 11 mörk. Allan Norðberg, leikmaður Vals, skoraði tvö mörk fyrir Færeyjar, sem eru í öðru sæti í 6. riðli undankeppninnar með þrjú stig eftir þrjá leiki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert